03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

463. mál, fátækralög

Jón Þorláksson:

Ég flyt hér brtt. við gr., á þskj. 618. þessi brtt. er sjálfsögð afleiðing af ákvæðum 4. gr., sem sett voru hér inn við 2. umr., um það, að í stað íbúatölu verði farið eftir tölu þeirra karla og kvenna, sem gjald eiga að greiða til ellistyrktarsjóðs. En gleymzt hafði að setja inn í 3. gr., að ráðuneytið fengi skýrslur um tölu þessara manna, en ekki um íbúatölu. Úr þessu er bætt með brtt.

Ástæða mín til að fylgja þessu frv. er fyrst og fremst sú, að sveitarþyngsli í einstökum sveitarfélögum eru orðin svo óhæfilega langt fyrir ofan meðallag, að þingið getur ekki lengur leitt hjá sér að gera eitthvað til umbóta. En ég sé ekki, að á þessu stigi málsins sé sérstök ástæða til, að ríkissjóður hlaupi undir bagga, þótt fátækraútgjöldin fari svo sem 10–15% fram úr meðaltali, heldur beri hér að líta praktískt á hlutina og gefa þeim hreppum létti, er hans hafa verulega þörf. Hitt er frekar fræðikenning, að ríkissjóður beri 2/3 kostnaðar af öllu því, sem er fram yfir meðaltal. A.m.k. álít ég ekki rétt að stofna frv. í neina tvísýnu með því að rýmka þannig tölu þeirra sveitarfélaga, sem njóta eiga umbóta þeirra, sem felast í frv. En út af þeim möguleika að jafna á milli hreppa innan hverrar sýslu, vil ég segja það, að ég tel óþarft að blanda því máli saman við þær ráðstafanir ríkissjóðs, sem hér ræðir um. Ég álít, að ráðstöfun þess fjár, sem ríkissjóður leggur fram, eigi að vera sú, að það gangi til þeirra hreppa, sem verða verulega hart úti, en svo geti sýslu- og hreppsnefndir athugað þann möguleika að jafna innan sýslufélaganna í ró og næði eftir á, og verði þetta þá tekið upp sem sérstakt mál.

Ég vil því mælast til, að brtt. hv. 3. landsk. um að ríkissjóður greiði 2/3 af því, sem er meira en 15% fram yfir meðaltal, verði samþ. Hæstv. fjmrh. sagði, að frv. bakaði ríkissjóði 60–70 þús. kr. árleg útgjöld. En hann gleymdi einum lið, hann gleymdi að telja þá 60—70 hreppa, sem eru á milli meðaltals og 20% yfir meðaltal, svo að kostnaðurinn verður raunverulega talsvert meiri en þetta, ef frv. verður samþ. eins og það er nú.