03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

463. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Ég álít, að hv. 4. landsk. hafi mikið til síns máls um jöfnun á milli hreppa innan sýslu og á milli kaupstaðanna. Með þessu yrði breyt. ekki eins stórfelld frá því kerfi, sem nú er. En ég ætla, að þetta frv. verði ekki samþ. breytingalaust í Nd., svo að síðar vinnist tími til að athuga það mál.

Vil ég þá víkja nokkuð að þeim brtt., sem fyrir liggja. Brtt. á þskj. 610, sem kveður svo á, að skilyrði fyrir sveitfesti sé, að menn hafi ekki þegið endurkræfan eða óendurkræfan sveitarstyrk síðustu 10 ár, gengur að mínu áliti allt of langt. Í fátækralögunum frá 1905 er þessi tími ákveðinn jafnlangur og sveitfestistíminn. Sama gildir í lögum nr. 13 frá 20. júní 1923. Þar er hvorttveggja tíminn jafnlangur, svo að sú regla, að hafa tímann frá því að sveitarstyrkur hefir verið þeginn, lengri en sveitfestistímann, er fyrst komin inn 1927, til þess að breyt. um stytting sveitfestistímans verki ekki eins ört og hún hefði ella gert.

Hv. þm. Snæf. hefir komið með till. um, að tími þessi verði 4 ár í stað tveggja í frv., og er þá fylgt sömu stefnu og í fátækral. 1927, að hafa tíma þann nokkru lengri eða hálfu lengri en sveitfestistímann. Ég hefði helzt kosið, að svo væri ekki, en hér er þó meðalvegur farinn; svo að ég mun ekki leggjast á móti brtt.Till. hv. 1. landsk. á þskj. 618 er sjálfsögð leiðrétting á frv. Ég mun greiða atkv. með till. hv. 3. landsk. um að ríkissjóður greiði aðeins af því, sem fer 15% fram yfir meðaltal. Með því verður breyt. minni frá því, sem áður var, og eins og ég hefi sagt, fylgi ég þeirri stefnu, að breyt. í þessum málum eigi ekki að vera allt of snöggar eða stórar í svip.

Þá er það brtt. á þskj. 618. Eftir að lögin frá 1923 komu út, átti ég tal um þau við kunnan mann, sem úrskurðað hafði fátækramáladeilur um langan tíma. Hann leit svo á, að 3. gr. þeirra laga, sem þessi brtt. er sniðin eftir, væri ekki þörf. Það er líka auðskilið mál, enda var öðruvísi farið að, þegar reglugerðinni um fátækramál frá 1834 var breytt með opna bréfinu frá 6. júlí 1848.