25.05.1932
Neðri deild: 83. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

463. mál, fátækralög

Einar Arnórsson [óyfirl]:

Í Ed. hefir sit breyt. verið gerð á þessu frv., að 21. gr. fátækralaganna hefir verið breytt þannig, að sveitfestistíminn yrði færður niður í 2 ár í stað fjögurra, og að menn eigi sveitfesti, ef þeir hafa ekki þegið endurkræfan eða óendurkræfan sveitarstyrk á síðustu fjórum árum, í stað 10 ára eftir gildandi lögum. Mér virðist sem engin ástæða sé til þess að fara að breyta þessum fyrirmælum nú, sem eru ekki nema 4–5 ára gömul. Ég hygg, að það sé ekki nægilega undirbúið mál eins og á stendur, og því leyfi ég mér að bera fram þá brtt., að 1. gr. falli burt og að þá standi 21. gr. fátækralaganna óbreytt. Mér virðist, að ef á annað borð er haldið þeirri reglu, að menn eigi að vera á vistum einhvern ákveðinn tíma í hrepp eða kaupstað til að vinna sveitfesti, þá sé ekki ástæða til að hafa hann skemmri en 4 ár. Lengstur hefir hann verið 10 ár. En ef menn vilja hafa dvalarstað sveitfestistímann, þá er það annað spursmál. En ekki er til of mikils mælzt af mönnum, ef menn annars vilja setja viss vistarskilyrði, þá séu 4 ár ekki of langur tími og því sé ekki ástæða til að lækka það niður í 2 ár, eins og ætlazt er til eftir 1. gr. frv. eins og Ed. skildi við það.