30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Guðbrandur Ísberg:

Ég ætla aðeins að gera stuttlega grein fyrir atkv. mínu.

Ég mun greiða atkv. till. hv. þm. Borgf. Ég geri það af því, að ég þykist sjá það, að bæirnir fái ekki risið undir þeim gjöldum, sem af því leiðir fyrir þá, að 2. gr. verði samþ. Enda er ég sannfærður um, að ef þessi breyt. hefði komizt inn í það frv., sem l. um skipulag kauptúna og sjávarþorpa eru byggð á, þá hefði það aldrei orðið að lögum, því að því er suma bæi snertir, er hér um stórfé að ræða. Hv. 3. þm. Reykv. benti á, að fyrir Reykjavík myndi þetta nema fleiri millj.; hv. þm. Borgf. sagði, að fyrir Akranes myndi það nema mörg hundruð þús., og fyrir Akureyri myndi það nema a. m. k. 400–500 þús. Þessa kvöð gætu bæjarfélögin ekki innt af höndum, og ég álít, að það sé ekki forsvaranlegt að hrapa svo að þessu máli, að sú hliðin sé ekki athuguð með fullri sanngirni.

Annars vil ég segja það, út af hinum almennu hugleiðingum hv. 4. þm. Reykv. um eignarrréttinn, að ég er honum sammála um, að hér er höggvið mjög nærri honum. En það verður ekki við öllu séð, og ég vil benda á, að þó hér sé höggvið nærri honum, er það ekki nær en í mörgum öðrum tilfellum. nú er t. d. bannað að selja skip úr landi. Það getur þó staðið svo á, að eigandi skips, sem þarf að selja það, geti selt það hærra verði út úr landinu en innanlands, ef hann aðeins mætti það. Mér finnst hér vera um svipað að ræða. Hér er ekki um það að ræða, eins og hv. 4. þm. Reykv. orðaði það, að bæjarfélögin mættu leggja undir sig eignir manna skilyrðislaust og endurgjaldslaust. Það getur ekki tekið neina eign án þess að greiða verð fyrir hana, en það getur lagt kvöð á eignina, sem að vísu getur rýrt hana að verðgildi. En ég sé ekki annað, eins og nú er komið vegna fyrri lagasetningar um þetta efni, en hagsmunir einstaklinganna verði að þessu leyti að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar.