30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að þessi handaþvottur hv. 4. þm. Reykv. er sannarlega kisuþvottur. Hann var einmitt einn þeirra manna, er fastast gekk fram til stuðnings skipulagslögunum 1921, þegar lögleiddar voru þessar ógurlegu og afskaplegu skerðingar, sem hann telur, að gerðar hafi verið á eignarrétti manna. Ég veit ekki, hvernig þessi hættulegu ákvæði þá hafa farið framhjá jafnskýrum og glöggum manni og hv. 4. þm. Reykv. er, — og ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um það, að þau hafa ekki farið framhjá honum þá, heldur hefir hann séð, að skipulagið var svo mikilsvert mál, sem hafði slíka þjóðhagslega þýðingu, að hann hefir talið einsætt, að yrði að logfesta það, jafnvel þó það yrði nokkuð harðleikið einstökum mönnum. Ég býst við, að þetta hafi valdið því, að hann var ekki á móti skaðabótaákvæðum laganna 1921, en ekki hitt, að honum hafi sezt þá yfir afleiðingar þeirra. Ég er viss um það, að hann hefir þá ekki síður en nú haft tilhneigingu til þess að vernda eignarrétt einstaklinganna, en hann hefir fundið, að hitt var þyngra á metunum, þar sem framkvæmd þessara laga er ekki kleif með því móti að snara öllum skaðabótunum út í einum svip. Hv. þm. talaði um, að bæirnir slyppu ekki eftir gildandi lögum við að greiða skaðabætur. Þetta er alveg rétt, en með ákvæðum laganna er bæjunum gert mögulegt að greiða þær. Til hvers eru lánsstofnanir yfirleitt starfræktar, til hvers er verið að stofna veðdeildir, ræktunarsjóð o. s. frv.? Er það ekki einmitt gert til þess, að þeir, sem lánin fá, hafi möguleika til þess að greiða á lengri tíma — t. d. allt að 40 árum — þann kostnað, sem þeir verða að leggja í vegna ýmsra framkvæmda? Framkvæmda, sem þeim væri annars ómögulegt að leggja út i, ef þeir ættu að greiða allan kostnaðinn strax. Hv. þm. hefir verið þess mjög hvetjandi, að stofnuð verði eðdeild, sem láni mönnum til bygginga. Slík stefna er ekki byggð á sömu forsendum og sú skoðun hans nú, að það skipti engu fyrir bæina, hvort þeir verði að greiða allar skaðabæturnar í einu eða á löngu tímabili. Hv. þm. hefir hér seilzt helzti langt í röksemdaleit. Hann hefir hér seilzt um hurð til lokunnar. Hv. þm. var að tala um, að hafnargerðir yrðu að biða vegna fjárskorts. Hann ætlar kannske að hjálpa Akraneskauptúni í því efni með því að skella á þorpið 270 þús. kr. útgjöldum á einu ári. Ég veit, að hv. þm. meinar þetta ekki, en hann hefir seilzt nokkuð langt eftir rokunum.

Ég veit satt að segja ekki, hvað það er, sem rekur á eftir hv. þm. í þessu efni. Ég hefi hvergi orðið var við neina óánægju út af þessu skaðabótaákvæði í lögunum frá 1921. Á Akranesi telja lóðareigendur það eðlilegt, að hreppssjóður geti ekki greitt skaðabæturnar á annan hatt og að þeir verði þess vegna að biða þeirra. Þeir vita sem er, að þeir hafa fullan umraðarétt yfir lóðunum, þeir mega rækta á þeim hvað sem þeir vilja og byggja á þeim peningshús eða önnur bráðabirgðahús og hafa öll afnot af lóðunum eftir sem áður, þangað til kemur til fyrirhugaðra framkvæmda.