17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

2. mál, fjáraukalög 1930

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

ég skal halda mér við þá starfsaðferð, sem hér hefir verið tekin upp, að geyma ýmislegt þangað til landsreikningar koma til umr. En út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ný regla hafi verið tekin upp í sambandi við samningu frv., játa ég, að hér er um nýja reglu að ræða, en hitt hefi ég ekki athugað, hve mikil áhrif hún hefir á upphæðirnar í frv. sjálfu. Var tekin upp sú regla að setja í fjáraukal. þær umframgreiðslur, sem heimilaðar höfðu verið í 23. gr. Hefi ég ekki athugað þetta nákvæmlega, en hefi þó séð, að áður hefir verið farið fram úr heimild í þessari gr. án þess að það væri tekið í fjáraukal.

Hv. þm. minntist á hátíðahöldin og kostnaðinn við þau, og sagði í því sambandi, að ég gæti snúið mér til stj. viðvíkjandi þessu, því að allir ráðh. hefðu verið í n. Skildist mér, að þeir hinir gætu þá þvegið hendur sínar af öllum hennar syndum. — Ég vildi í þessu sambandi aðeins benda á, að þegar fulltrúar úr öllum flokkum þingsins koma saman og fá mikinn hluta fjárveitingavaldsins í sínar hendur, þá fara þeir ekki betur með það en svo, að kostnaður verður óþarflega mikill. Meira að segja finnast í þessum kostnaðarlið allir þeir póstar, sem stj.-andstæðingar ásaka stj. fyrir að hafa haldið ósparlega á. Þessi veizla, sem ég nefndi, var ekki sú eina, sem haldin var í sambandi við þessa starfsemi. Þarna voru ferðakostnaðarreikningar ekki lægri en þeir, sem stj. hefir verið vítt fyrir, ferðalög með 100 kr. dagpeningum í margar vikur. Einum manni voru borgaðar 6000 kr. fyrir að stjórna leiksýningu. Svona gæti ég haldið áfram að telja með tölum, sem hefðu hneykslað hv. 4. þm. Reykv., ef stj. hefði verið ein um þetta. Að stj. átti sæti í n., er að mínu áliti engin réttlæting á göllunum. Er ég ekki að koma með nein hlutdræg dæmi, heldur bendi ég á það að þegar allir flokkar leggja í eitt púkk, þá verður meðferðin á ríkisfé ekki betri en sú, sem flokksmenn hv. þm. kvarta mest um hjá stj.

Hv. þm. sagði, að hátíðahöldin hefðu orðið sérlega ódýr. Já, framúrskarandi ! Geymi ég það til umr. um LR. að fara nánar út í það. Bendi ég þó hér á það, að ekki er allt heill sannleikur hjá hv. þm.

Eru honum a. m. k. mislagðar hendur í dómum sínum, ef hann telur það allt gott, sem þessi n. gerði, en aðra meðferð ríkisfjár glæpsamlega. Hv. þm. sagðist ekki átelja það, þótt þetta mikla fé hafi verið notað, heldur það, sem notað hefði verið umfram áætlun. Þetta fé hefði ekki verið áætlað, og því væri ekki ástæða til þess að átelja eyðsluna. En ég er búinn að benda á, að 2/3 af fjáraukalögunum frá síðasta þingi voru einmitt vegna kostnaðar við hátíðahöldin — 2/3 hlutar. En hann tók þau og lagði upphæðina í þeim fjáraukal. við þessi fjáraukal. til að sýna, hvað umframgreiðslan væri mikil. En hann verður að athuga það, að þarna er um ekki litlar upphæðir að ræða, sem stj. hafði enga aðstöðu, nema sem einstakir nefndarmenn, til að takmarka. Nú veit ég ekki og langar ekki til að vita, hvernig samvinnan var í n., en ég þykist þó vita, að hún hafi verið góð og elskuleg, því ég hefi heyrt, að n. hafi starfað í mikilli eindrægni, eins og líka vel fór. Og ég er ekki að sjá eftir þeim upphæðum, sem þarna hafa farið, því ég álit það mjög mikilsverið störf, sem n. hefir leyst af hendi í sambandi við hátíðina, og að það skipti miklu meira fyrir þjóðina, að þau fóru vel úr hendi, en hitt, hvort verið var að spara svo sem 100 þús. kr., eða ekki.

Hv. 2. þm. Skagf. var að segja, að ég hefði minnzt á óeðlilega liði í þessu frv. En ég held, að ég hafi orðað það svo, að það væru í því óvenjulegir liðir, af þeim ástæðum, að á þessu ári koma margar framkvæmdir, sem stj. var knúð til að gera samkv. framkomnum vilja Alþ., og meðal þeirra eru, eins og ég hefi áður bent á, stærstu upphæðirnar, eins og t. d. landsspítalinn. Til hans var ekki áætlað nema lítið, en þingið skoraði á stj. að flýta verkinu sem mest, því það var talið nauðsynlegt, að byggingu spítalans væri lokið fyrir alþingishátíðina, svo hægt væri að nota spítalann í þarfir alþingishátíðarinnar, eins og líka var gert.

Aftur á móti þegar verið er að tala um fjáraukal., þá er ekki tekið neitt tillit til þessara fjárgreiðslna, sem ég hefi nefnt til að afsaka, hve þau eru þá, heldur eru fjáraukalögin í heild notuð sem ásökunarefni á stj. (MG: Hvernig var það, þegar talað var um fjáraukal. miklu? Var þá tekið tillit til slíks?). Ég fyrir mitt leyti álít, að það hafi mikið verið hægt að afsaka af þeim fjáraukal. En þó niðurstaða þeirra fjáraukal. hafi verið notuð sem ásökunarefni á þáv. stj., þá er það ekki réttlát bending um, að svoleiðis eigi framvegis að sækja og verja það mál.

Hv. þm. minntist á Arnarhvál og hélt, að ekki hefði verið gerð nein áætlun um, hve mikið hann mundi kosta. En ef ekki hefir verið gerð nein áætlun — ég man það nú satt að segja ekki —, þá var því síður hægt fyrir þingið að binda heimildina við fast ákveðna upphæð. En ég hygg nú, að áætlun, a. m. k. um gerð hússins, hafi legið fyrir á þessu tímabili. En ef ekki hefir legið fyrir nein kostnaðaráætlun, þá var hæpið fyrir þingið að ganga út frá ákveðinni upphæð. En þó hún nú hafi verið fyrir hendi, þá er hér ekki um neitt nýtt að ræða, því það er margsannað, að áætlanir hafa aldrei staðizt, og hefir það bakað ríkissjóði og þjóðfélaginu stórkostlegt tjón, hve allar áætlanir hafa reynzt óábyggilegar.

Ég benti á það í sambandi við, hvernig byggingu síldarbræðsluverksmiðjunnar var hagað, að það hefði mátt byggja þar aðeins fyrir það fé, sem veitt var, og láta hana vera ókláraða þangað til fjárveitingavaldið hafði veitt fé á ný til að halda verkinu áfram með þeim hraða, sem þingið óskaði. En þess er þá ekki að dyljast, að þá gat svo farið, að það hefði verið tjón fyrir ríkið. Og það myndi einstaklingunum finnast, að það væri óhyggilegt að láta slíka byggingu standa mjög lengi yfir. Yfirleitt er það hyggilegt að fá not af slíkum fyrirtækjum sem fyrst, og það munu flestir keppa að því, sem að slíkum byggingum standa. Þarna er leið, sem hefði mátt fara við byggingu Arnarhváls, en ég býst við, að það hefði orðið kostnaðarauki. Að húsaleigan fyrir skrifstofurnar þarna er dýrari en hún var áður, meðan leigt var fyrir þær úti í bæ, stafar að nokkru leyti af því, að skrifstofurnar hafa fengið betra og meira pláss en áður, og það er sjálfsagt líka mikils virði fyrir þær, þó hitt hafi kannske getað slarkað.

Þá minntist hv. þm. á endurgreiddan toll og sagðist ekki skilja að hann gæti komið annarsstaðar til gjalda en í 19. gr. En það er mjög þægilegt að koma honum fyrir sem frádrætti á því fylgiskjali, sem tollar eru fæðir á. Ég er ekki í vafa um, að það liggur alltaf ljóst fyrir í hverju einstöku tilfelli, í hvaða lögsagnarumdæmi tollar eru endurgreiddir. Ef menn vilja sundurgreina það, má draga frá endurgreiðslurnar á tollskýrslunum, og þó það sé ekki gert nema í einu lagi, þá er auðvelt að draga hann frá á sama fylgiskjali.

Yfirleitt er það ekki rétt að færa upp á landsreikningnum tekjur, sem eru engar tekjur, af því að þær eru endurgreiddar, eins og gert er með núv. formi, og færa þær svo til útgjalda. Og ég held, að með því formi, sem nú er búið að taka upp á landsreikningnum, eigi svo að vera framvegis, að þessi tollur verði ekki færður á 19. gr. eins og verið hefir.

Ég ætla ekki að fara frekar út í umr. um þessi atriði; það getur beðið landsreikningsins. En af því hv. 2. þm. Skagf. minntist á veizlu, þá tók ég aðra til samanburðar. Um hitt má deila lengi, hvor veizluhöldin hafi átt meiri rétt á sér. En sannast að segja finnst mér það nú ekki neinn sögulegur viðburður, að alþingishátíðanefndin var búin að halda 100 fundi. Það væri þá alveg eins mikil stæða til, að við þm. heldum það hátíðlegt, þegar við höfum setið 100 daga þing, og það er nú ekki svo langt þangað til. (MJ: Kannske það verði gert?). Kannske það verði gert, skýtur einhver að mér. Það getur vel verið, en ég hefi heyrt lítið í þá átt. En ef þetta 100 daga minni okkar á að kosta í hlutfalli við kostnaðinn af 100 funda afmælinu, þá getur það kostað talsvert. (MJ: Hvað kostaði nefndarveizlan?). Hún kostaði nú ekki nema á annað þúsund kr. fyrir þessa 7 menn. En það var drukkið fast og setið lengi. (MJ: Drakk Tryggvi líka?) Ég var ekki í veizlunni og er ekki kunnugt um, hverjir hana hafa setið. En ég hefi aðeins séð það bókað í gerðabók alþingishátíðarnefndarinnar, að þetta hafi verið mjög hátíðleg stund.