30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki um það deila við hv. þm. Borgf., hvorum okkar gangi betur að þvo hendur sínar í þessu máli. Þó ég væri hlynntur lögunum 1921, þá barðist ég þá aðallega fyrir því, að skipulagsákvæðin næðu til minni þorpa en ákveðið var og aðrir hv. þm. þá vildu vera láta. Ég taldi nauðsynlegt að skipuleggja þorpin sem fyrst, meðan þau enn væru smá vexti.

Ég get þakkað hv. þm. Borgf. fyrir þau skapgerðarvottorð, er hann gaf mér, og hann er sjálfsagt fús á að bæta því við, að batnandi manni er bezt að lifa. Ég get sagt honum það, án þess að skammast mín fyrir, að það for alveg framhjá mér árið 1921, hve ákvæðið um greiðslu skaðabótanna er ranglatt og hættulegt. og ég tel það nægilega afsökun. En ég er ekki viss um, að hv. þm. Borgf. gangi eins vel að þvo sig af þeirri ásökun að hafa gengið fullnærri 63. gr. stjskr., sem segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir“. Er hægt að segja, að fullt verð komi fyrir þá lóð, sem ég hefi keypt fyrir 100 þús. kr. og við skulum segja, að yrði metin jafnhátt, en mér er meinað að nota hana eins og mér er haganlegast, en skaðabætur fyrir það fæ ég ekki fyrr en eftir heila öld? Þótt ég hafi kannske einhver sérréttindi til þess að ganga um hana eða til þess að nota hana, eins og Akranesbúar, er hætt við því, að hún gefi mér heldur litlar tekjur til þess að ég væri skaðlaus af að eiga hana. (BA: Hv. þm. gæti ræktað á henni kartöflur). Hv. þm. Mýr. ráðleggur að rækta á lóðinni kartöflur. Það verður þá ekki fyrr en innflutningsbann á kartöflum er komið á og þær orðnar verulega dýrar, sem það borgar sig.

Ég sé nú reyndar ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Það verður að skeika að sköpuðu um afdrif þessa frv. En það munu hv. þdm.“ komast að raun um, að eitthvað verður að gera til þess að sætta þá menn, sem fyrir ranglætinu verða, og falli þetta frv., mega hv. þdm. eiga það víst, að það kemur brátt fram aftur, og þá sennilega með þeim breyt., sem kveða niður þær mótbárur, er gegn því hafa nú verið fluttar. Ég sé vissulega þörf bæjanna á því að eignast gott skipulag, en því máli verður þá fyrst réttilega skipað, að litið sé á málstað beggja aðilja.