30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þetta mál hefir oft áður komið fyrir hv. d. Stundum hefir það aðeins verið rætt, en stundum hefir það komizt gegnum deildina, og svo var það á þinginu í sumar. Það verður að telja, að sumir hv. þm., eins og t. d. 3. þm. Reykv., hafi vaknað heldur seint í þessu máli, því að í sumar fann hann ekki neitt athugavert við frv. Hér er um mikið vandamál að ræða, því það þarf að taka tillit til aðstöðu þessara tveggja aðilja, bæði lóðareigenda og bæjarfélaganna. Það getur vel verið, að 2. gr. þessa frv. verði bæjarfélögunum fullþungbær, ef hún nær samþykki, að með henni séu hagsmunir þeirra ekki nægilega varðveittir. Sérstaklega á þetta við um þau bæjarfélög, sem þegar hafa — undirgengizt skipulagsuppdrátt, og eigi hafa búizt við að þurfa að greiða bætur eftir 28. gr. skipulagslaganna fyrr en breytingar þær, sem skipulagsuppdráttur greinir, komast í framkvæmd. En ég vil taka undir það með hv. 4. þm. Reykv., að það ætti að vera mögulegt að hnika 2. gr. frv. svo til, að sætta megi hagsmuni hinna tveggja aðilja. Það er þó ekki sagt í frv., eins og hv. þm. Borgf. hélt fram, að allar skaðabætur eigi að greiða lóðareigendum þegar í stað, en það kann að vera, að í 2. gr. sé ekki gerð nógu sterk krafa til sönnunar á því, að lóðarareigendur verði fyrir skaða.

Það er hægt að benda á mörg dæmi fyrir því, fleiri en hv. 4. þm. Reykv. benti á, að ýmsir einstaklingar gætu allt að því orðið færðir úr skyrtunni með ákvæðum núgildandi laga, eins og þau eru. Það er hægt að hugsa sér mann, sem leggur allt, sem hann á, til að kaupa lóð, sem síðan eftir skipulagsuppdrætti á að verða að götu eða torgi í bænum. Það er kallað, að hann hafi umráðarétt yfir lóðinni; hann má rækta á henni kartöflur og hann hefir rétt til að horfa á hana, en hann má ekki byggja á henni nema með því skilyrði að flytja bygginguna burt á sinn kostnað, þegar bæjarstjórn krefst þess. En gatan, sem þar á að leggja, kemur e. t. v. ekki fyrr en eftir marga áratugi.

Það er hægt að taka annað dæmi um mann, sem gjarnan vildi selja lóð sína eða skipta á henni og annari, en hann getur það ekki fyrir það, að skipulagið ákveður að taka hana einhverntíma til afnota fyrir bæinn.

Þau dæmi eru mörg til, að einstakir menn verða sérstaklega hart úti í þessum efnum, og það eru alls ekki endilega þeir, sem kallað er að braski með lóðir, heldur þvert á móti þeir, sem alls ekki gera það eða hafa gert það. Braskararnir geta sloppið alveg ómeiddir, en hinir geta orðið svo hrapallega fyrir barðinu á skipulaginu, að þeir tapi fyrir það öllu sínu.

Ég tel, að það hafi verið mikil yfirsjón hjá löggjafarvaldinu 1921 að setja ekki ákvæði um það, að menn skyldu fá bætur, þegar er þeir gætu sannað, að þeir yrðu fyrir verulegu tjóni vegna skipulagsákvæðanna. En það er eins og löggjafarnir hafi verið blindir þá. Hvers vegna hugsuðu þeir ekki út einhver ráð til tekjuöflunar til þess að greiða þær skaðabætur, sem sanngjarnar yrðu, til þeirra manna, er biðu tjón, svo að ekki þyrfti að leika vafi á því, hvort lögin færu í bága við stjórnarskrána? Hvers vegna lögleiddu þeir ekki verðhækkunarskatt á löndum og lóðum, til þess að bæta þann halla, er lögin höfðu í för með sér, eða eitthvað annað hliðstætt?

Ég vil annars minna á það, að vandaspurning þessa máls er ekki leyst, þótt 2. gr. frv. falli, en 28. gr. 1. haldist óbreytt. Ef einstaklingar geta fært fullar sönnur á það, að þeir séu farnir að bíða tjón af skipulaginu, þá er alls ekki útilokað, að þeir geti sett slík mál fyrir dómstóla og fengið sér dæmdar skaðabætur.

Það er í tvær áttir að líta í máli þessu. Þeir, sem líta aðeins á hag bæjanna, fella frv. af ótta við þann kostnað, er þeir telja, að bæirnir muni af því bíða, en það er aðeins um stundarsakir, sem þetta mál fær frest. Málið rís sennilega upp aftur í breyttri mynd, sem þeir menn, er vilja fella þetta frv., geta ef til vill sætt sig við.