01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er búið að tala svo mikið um fjárhagskreppuna, að það virðist óþarfi að benda á það hér, að hún er til staðar. Það er líka öllum kunnugt, að kreppan stafar að miklu leyti af verðfalli á aðalframleiðsluvörum landsmanna, bæði til lands og sjávar. Af þessu verðfalli leiðir aftur það, að framleiðendur hér á landi, stórir og smáir, eru í mestu vandræðum með að inna af hendi þær greiðslur, sem þeim ber. Það er einmitt með tilliti til þessara vandræða um greiðslur, að landbn. hefir samið þetta frv. á þskj. 256 um greiðslufrest bænda og bátaútvegsmanna.

Tilgangurinn með þessu frv. er sá, að reyna að veita þeim, sem erfitt eiga með greiðslur, aðstoð um að fá frest á skuldagreiðslum um nokkurn tíma. Þessi greiðslufrestur, sem n. hefir hér í huga, er mjög tímatakmarkaður. Það er ekki gert ráð fyrir, að frv., ef það verður að lögum, gildi lengur en til 1. júlí 1933. Það er ekki gott að vita, hversu lengi þessi kreppa stendur. Vera má, að þegar næsta þing kemur saman, sjáist nokkuð betur en nú, hversu lengi hún muni standa og hvaða stefnu hún muni taka, og verður þá hægur hjá að gera nýjar ráðstafanir, ef þurfa þykir, og ég skal taka það fram, að ég er mjög hræddur um, að þess muni þurfa.

Ég vil gjarnan benda á það, að það er ákaflega erfitt að setja löggjöf á þessu sviði, bæði vegna þess, að hér er nýtt löggjafarefni og vegna óvissunnar framundan. Ég get þessa af því, að ég get vel ímyndað mér, að það reynist svo, að gallar komi í ljós á þessu frumsmiði, og þá er gott, að svo er fyrirskipað, að þetta mál skuli tekið til nýrrar athugunar á næsta þingi, og ég get vel ímyndað mér, að hv. þdm. hafi nú þegar rekið augun í einhver þau ákvæði í frv., sem betur mættu fara. N. mun taka með þökkum öllum leiðbeiningum í þessu máli og væntir, að frv. mæti skilningi og samtíð hjá hv. hdm. yfirleitt.

Ég finn mér skylt fyrir hönd n. að gera grein fyrir ákvæðum þessa frv. vegna þeirra manna, sem eiga að fá nokkra vernd eftir þessu frv., og þeirra, sem eiga að vera útilokaðir frá henni.

Ég get vel ímyndað mér, að spurt verði um, hvers vegna ekki eigi að hjálpa fleiri mönnum en hér er gert ráð fyrir, nefnilega bændum og bátaútvegsmönnum, hvers vegna ekki eigi að hjálpa stóratvinnurekendum eða verkamönnum. Að því er snertir stærri atvinnurekendur, er því til að svara, að n. sá ekki fært fjárhagsins vegna að veita þar hjálp. Það er ekki svo að skilja, að n. hafi ekki viljað viðurkenna það, að stærri atvinnurekendur eigi hlutfallslega við eins mikla erfiðleika að stríða og hinir smærri. En þeir verða að gjalda þess, að þeir þyrftu svo mikla hjálp, að til þess eru engin efni.

Að því er snertir þá menn, sem ekki stunda neina framleiðslu, þá vil ég benda á, að á annan hátt ýmsan hefir verið reynt að bæta úr fyrir þeim. Í þessu tilliti er alveg sérstöku máli að gegna um bændur. Ef svo hart er gengið að þeim vegna skulda, að af þeim er tekin bæði jörð og bústofn; þá er búið að taka af þeim þeirra atvinnumöguleika, svo að þeir eiga einskis annars úrkostar en að flytja úr sveitunum og til kaupstaðanna. Það er þess vegna ekki sama að taka af bændum jörð og bú og að taka af tómthúsmönnum og öðrum kaupstaðabúum innanstokksmuni þeirra eða aðrar þær eignir, er þeir hafa undir höndum, því að með því eru þó ekki teknir frá þeim atvinnumöguleikar þeirra; þeir geta eftir sem áður stundað sína daglaunavinnu. Og að vísa bændum á atvinnu í kaupstöðunum, það er sama og að vísa þeim á ekkert. Það væri líka eitt af því versta, sem komið gæti fyrir verkamenn í kaupstöðum, ef margir menn úr sveitum neyðast til að flytja svo að segja ofan á verkamenn kaupstaðanna.

Þessa grein vil ég þá gera fyrir réttmæti þeirrar skilgreiningar, sem um ræðir í 1. gr. En um aðferðir þær, er frv. gerir ráð fyrir um greiðslufrest, vil ég minnast á það, án þess að fara mikið inn á einstakar gr. frv., að gert er ráð fyrir, að í hverju sýslufélagi og bæjarfélagi verði sett á stofn þriggja manna n., sem hafi með höndum þær beiðnir um greiðslufrest, sem fram koma innan hvers kaupstaðar eða bæjarfélags. Það virðist tæplega vera hægt að hafa aðra tilhögun en þessa.

Ég get þess, að fyrir n. lá frv., sem búnaðarþingið hafði haft til meðferðar, og var það að ýmsu leyti notað sem grundvöllur undir starfi n., þó með mjög miklum breytingum.

Ég hirði ekki við þessa umr., að fara út í þær aðferðir, sem skilanefndir skulu nota, en viðvíkjandi 16. gr. vil ég taka það fram, að það getur náttúrlega komið fyrir, að þær stofnanir (veðdeild, Búnaðarbanki) sem lánað hafa fé og eiga að borga það aftur með árlegum útdrætti vaxtabréfa, verði fyrir erfiðleikum út af því, að þeir, sem fá þennan gjaldfrest, borga ekki. En nú er það auðvitað, að þessar stofnanir verða að standa í skilum. Ef þær gerðu það ekki, þá gæti það orðið til þess, að lánstrausti landsins væri stór hætta búin. N. sá enga aðra leið út úr þessu en að fela ríkisstj. að hlaupa undir bagga með þessum stofnunum, ef svo mikið kveður að vangreiðslum samkv. þessu frv., að stofnanirnar komast í vandræði fyrir það. Ennfremur getur það komið fyrir, að bankar og sparisjóðir lendi í nokkrum erfiðleikum, vegna þess að minna sé borgað af þeim lánum, sem á að greiða þeim, og þá er ekki heldur annað að gera en að vísa til ríkisstj. til að hlaupa undir bagga. Fyrir þessu öllu er séð með ákvæðum 16. gr. frv.

Ég held ekki, að á þeim tíma, sem þessi ákvæði eiga að gilda, ef frv. verður að lögum, komi til, að mikið verði um slík vandræði þessara lánsstofnana út af þessu. Ég held, að það fari svo, að þessar stofnanir sitji fyrir um greiðslur af hálfu þeirra, sem þeim skulda.

Aðalgagnið af þessu frv. hygg ég, að verði það, að bæði skuldheimtumenn og skuldunautar verði rólegri. Skuldheimtumenn verða ófúsari á að ganga að þeim mönnum, sem verndar njóta eftir þessu frv., af því að þeir sjá, að það er hægt fyrir skuldunautana að leita þeirrar verndar, sem hér er gert ráð fyrir. Og ég vil segja það, að ef lög um þetta efni gætu gert það að verkum, að aukin ró fengist í þessum málum, þá væri þegar stórmikið unnið.

Ég vil benda á það, að það eru ekki nærri því allir þeir atvinnurekendur, sem nefndir eru í 1. gr., sem geta gert sér von um að fá vernd eftir þessu frv. Ýmsir flokkar manna eru undanskildir, og er þá fyrst og fremst að nefna þá, sem samkv. upplýsingum, sem skilanefnd fær, eiga ekki fyrir skuldum. En þó er reynt — og er það eftir ráðum búnaðarþingsins — að skorða þetta þannig, að þeir verði ekki allt of margir, sem lenda í þessum flokki. Er það gert með því að leggja til grundvallar tekju- og eignarskattsframtal þriggja síðustu ára, þegar meta skal, hvort þeir eigi fyrir skuldum eða ekki. Þetta verður til þess, að talsvert fleiri geta fallið undir vernd þessara laga en ella mundi. Þetta þótti nauðsynlegt vegna þeirrar lækkunar, sem orðið hefir á verði á öllum bústofni, því að eftir núv. verðlagi væri hætt við, að fjöldamargir bændur teldust ekki eiga fyrir skuldum og kæmust því ekki undir vernd þessara laga.

Að sjálfsögðu er ekki heldur meiningin með þessu frv. að vernda þá menn, sem eru það vel stæðir, að þeir geta uppfyllt sína samninga. Eins og af líkum ræður, er ekki meiningin að hafa þetta fyrir skálkaskjól handa þeim mönnum, sem geta borgað, en vilja það ekki. Það á ekki heldur að láta þessa vernd taka til þeirra manna, sem á einhvern hátt eru líklegir til að nota þennan frest til að rýra tryggingar skuldheimtumanna sinna.

Yfirleitt hefir n. reynt að hafa þetta frv. sem sanngjarnlegast á allan hátt, en eins og gefur að skilja, getur alltaf orðið álitamál, hversu langt skuli ganga í einu og öðru, og n. er auðvitað fús til að taka öllum velviljuðum leiðbeiningum um það efni.

Það hefði legið nærri að gera í frv. nokkra skilgreiningu á skuldum, eftir því hvernig á þeim stendur, hvernig þær eru tryggðar og þar fram eftir götunum, eins og venja er til um skuldir yfirleitt. Það varð þó ofan á, að n. gerði þetta ekki, heldur lét skilanefnd eftir að meta það í hverju einstöku tilfelli, í hverri röð skuldir skyldu greiðast.

Nú er það auðvitað svo, að það getur vel komið fyrir, að maður geti borgað sumar skuldir sínar, en ekki aðrar, og verður skilanefnd þá að ákveða, hvaða skuldir hann skuli borga og hverjar skuli bíða.

Eins og ég mun þegar hafa tekið fram, er ekki ætlazt til, að gjaldfresturinn nái til vaxta, heldur aðeins til afborgana. N. áleit, að hættulegt gæti orðið að hlaða vöxtum ofan á, enda er þess að vænta, að allir þeir, sem á annað borð eiga fyrir skuldum, geti með einhverjum ráðum staðið straum af vaxtagreiðslu, eða útvegað sér fé til þess.