01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Mér þykir ekki nema eðlilegt, þó að frv. þetta fái misjafnar undirtektir, og geri ég ekki ráð fyrir, að landbn. kippi sér upp við það. Ég get verið þakklatur hæstv. forsrh. fyrir hans góðu undirtektir undir málið, en af því að hann nefndi útlenda löggjöf um þetta efni, þá verð ég að taka það fram, að í henni er lítill styrkur fyrir oss, því að erlendis hagar allt öðruvísi til um þessi mál en hér. Þar er mest um fasteignaveðskuldir að ræða. Ganga því aðaltilraunirnar í þá átt að hjálpa þeim bændum, sem hafa veðsett fasteignir sínar fyrir hærri upphæðum en þær eru verðar. Hér er aftur á móti mikill hluti skuldanna ekki tryggður með fasteignaveðum. Það eru víxlar, ábyrgðarlán og verzlunarskuldir.

Hæstv. forsrh. áleit, að það þyrfti nánari ákvæði í 2. málsgr. 16. gr. frv. en þar eru. Ég vil út af því segja hæstv. forsrh., að það var meining n. að gefa fjmrn. eða fjmrh. sem rýmsta heimild í þessu efni, binda sem minnst hendur hans. Hefir hann því heimild til þess samkv. ákvæðum gr. að taka lán til þessara hluta, ef með þarf.

Hv. 3. þm. Reykv. andmælti frv. mjög harðlega og taldi það lítið þjóðráð, sem í því fælist. En því hefir heldur ekki verið haldið fram, heldur er hér um lítilsháttar tilraun að ræða til hjálpar vegna kreppunnar. Það á ekki að hlaupa undir bagga með þeim, sem geta staðið undir greiðslum sínum sjálfir, eða með þeim, sem ekki geta komizt af í venjulegu árferði, heldur þeim, sem eiga fyrir skuldum, en sökum kreppunnar eru komnir í greiðsluþrot.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvort gengið hefði verið eftir svari hjá bönkunum og S. Í. S. Eins og tekið hefir verið fram, sendi n. frv. það, er búnaðarþingið hafði samþ., til umsagnar bönkunum og S. Í. S. Búnaðarbankinn svaraði mjög bráðlega aftur og gerði nokkrar aths. við það, og hefir verið reynt að taka þær til greina. Aftur á móti hefir Landsbankinn ekki svarað neinu, og hefir þó lengi verið beðið eftir svari frá honum. Sambandið hefir heldur ekki svarað skriflega, en hv. þm. Mýr. hefir sagt mér, að það hafi leyft sér að hafa það eftir, að það myndi geta sætt sig við frv. n. Þetta er það, sem ég veit sannast um svör þessara stofnana.

En ég verð að segja það, að ég varð töluvert vonsvikinn yfir því, að Landsbankinn skyldi ekki svara og Sambandið ekki fvrr en svo seint.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, og það alveg réttilega, að Sambandið væri aðalskuldheimtumaður bændanna, því að þeir skulduðu því gegnum kaupfélögin. En þar sem það hefir þó lýst yfir, að það myndi geta sætt sig við frv., þá tel ég ekki svo mikla hættu á andmælum frá öðrum skuldaeigendum.

Það má halda því fram, að lánsstofnanir þori síður að lána, ef svona frv. verður að lögum, en ég er ekki viss um, að svo verði í raun og veru. Hér er ekki farið fram á annað en að láta þá menn fá greiðslufrest á skuldum sínum, er sökum erfiðs árferðis geta ekki borgað, en eiga þó fyrir skuldum.

Þá kvaðst hv. 3. þm. Reykv. vera hræddur um, að taka yrði ríkisábyrgð á fleiru, ef gjaldfrestur þessi yrði veittur. Ég veit ekki vel, hvað hv. þm. á hér við, en víst er um það, að hann hefir ekki hingað til verið hræddur við að láta ríkið ganga í ábyrgðir fyrir hinu og þessu. Ég fyrir mitt leyti sé enga hættu geta legið í þessu.

Þá nefndi hv. þm., að réttara væri að breyta lögunum um nauðasamninga heldur en ganga inn á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir. Um þetta er það fyrst og fremst að segja, að lögin um nauðasamninga gera alltaf ráð fyrir nokkru af peningum til greiðslu strax, og í því liggur aðalerfiðfleikinn. Hér er heldur ekki átt við afslátt af skuldum, en nauðasamningarnir gera alltaf ráð fyrir slíku. Þetta stendur líka í sambandi við það, að meginþorra bænda er áreiðanlega mjög óljúft að fá eftirgjafir á skuldum sínum.

Þá hélt hann því fram, hv. þm., að frv. Þetta mundi sízt verða til þess að auka tiltrú landsmanna erlendis. En ég fæ ekki séð, hvernig það mætti verða, að frv. spillti fyrir okkur erlendis, ef að lögum yrði. Ég held, að það sé ekkert óþekkt fyrirbrigði, að veittur sé gjaldfrestur á skuldum. Er kannske ekki alstaðar í heiminum verið að ræða um gjaldfresti á skuldum og eftirgjafir? Hvernig getur hv. þm. óttazt, að það spilli frekar lánstrausti og tiltrú okkar en annara þjóða, þó að við gerum sama og þær, sem sé að veita litlum hluta þegnanna dálítinn gjaldfrest á skuldum sínum? Það skil ég ekki.

Þá nefndi hv. þm., að réttara væri að taka t. d. jarðabótastyrkinn og láta hann ganga beint til skuldalúkninga fyrir bændur. Hvað heldur hv. þm., að bændur geri annað við styrkinn en að láta hann ganga til skuldagreiðslna? Þeir eru búnir að vinna jarðabæturnar og skulda fyrir þær; nota þeir því féð til greiðslu fyrir þær eða í aðrar brýnustu þarfir sínar.

Þá kem ég að hv. þm. Vestm. Hann sagði nokkur orð í garð frv., og skildist mér helzt á honum, að hann teldi það ná of skammt. Of fáir, sem fengju vernd af því og afleiðingin gæti því orðið sú, að vanskil þeirra, er vernd fá, velti yfir þá, sem enga vernd fá. Ég skal fúslega viðurkenna, að skemmtilegast hefði verið að geta veitt fleiri atvinnurekendum slíka vernd sem þessa, en n. sá sér það ekki fært, sökum fjárhagsástæðna ríkissjóðsins, því að ekki er í annað hús að venda en til hans, þegar lánstofnanirnar komast í þrot. En við myndum fúsir til að athuga það, að láta þessa vernd ná lengra, ef bent væri á möguleika fyrir því, að ríkissjóður væri fær um að veita þá hjálp, sem til þess þyrfti. En sem sagt, það er svo oft búið að taka það fram, að ríkissjóður eigi svo erfitt, að ekki sé miklu á hann bætandi. Geri ég því ekki ráð fyrir, að hægt verði að ganga lengra í þessu efni en gert er í frv.

Þá benti hv. þm. á sem misræmi í frv., að því væri ekki ætlað að veita öðrum útvegsmönnum vernd en þeim, sem gerðu út báta undir 30 smál., en aftur á móti öllum bændum. Ég býst varla við, að ýkjamargir stórbændur séu til í landinu nú, en ef þeir eru einhverjir til, þá njóta þeir engrar verndar, því að þeir, sem geta borgað af skuldum sínum, eiga að gera það eftir frv. N. sá sér ekki fært að aðskilja bændur í frv., útiloka t. d. þá, sem byggju á stærri jörðunum, því að það er engin sönnun fyrir því, að þeir séu betur stæðir en hinir. (JJós: Þetta er gert með bátaútvegsmennina). Það er alveg rétt. En það er gert sökum þess, að þegar komið er að hinum stærri útvegsmönnum, þá er svo mikið, sem þeir þurfa, að það yrði ekki viðráðanlegt, eins og ég hefi þegar bent a. En einhversstaðar varð þó að setja takmörkin, og þá varð að miða þau við fjárhagsástæður ríkissjóðsins.

Það kom til umr. í n., hvort ekki væri varhugavert að leggja á ríkissjóðinn þá byrði, sem gert er ráð fyrir í 16. gr. frv., en þar sem ekki er gengið lengra en þar greinir, þá virtist henni það tiltækilegt.

Það veigamesta í ræðu hv. þm. Vestm. var það, að ef svo færi, að hinir smærri atvinnurekendur fengju gjaldfrest á skuldum sínum, þá gæti svo farið, að hinir stærri lentu greiðsluvandræðum þess vegna. Ég skal viðurkenna, að það væri slæmt, ef slíkt kæmi fyrir. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir veitt því athygli, að það er ætlazt til þess í frv., að hver atvinnurekandi borgi eins mikið og hann getur, og verði svo, þá skil ég ekki, að hætta geti verið á, að svo fari sem hv. þm. gat til. Skuldheimtumennirnir myndu ekki fá frekari greiðslu hvort sem væri.

Ein meginhugsunin, sem liggur til grundvallar fyrir frv., er sú, að skapa ró, svo ekki verði gengið að mönnum með málssóknum og fjárnámum. Annars er frv. látið ná eins skammt og hægt er, og ekki er ætlazt til, að lögin gildi nema til 1. júlí 1933.