01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er aðallega út af aths. hæstv. fjmrh., sem ég vildi segja nokkur orð, en ég veit ekki, hvort hann er viðstaddur í d. (Fjmrh.: Hann er nálægt). Það eru þá fyrst hans aths., sem snerta 16. gr. frv. mér fannst hann líta svo á, að með þeim ákvæðum, sem þar eru, væru ríkissjóði bundnir þungir baggar, eða að þeir gætu orðið svo þungir, að annaðhvort yrði að veita fé í fjárl. til þeirra útgjalda eða sjá ríkissjóði fyrir nýjum tekjustofni. Ég vil fyrst athuga fyrri hluta 16. gr.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefir athugað það, hversu mikið fé hér er um að ræða. Það er nú svo með þessi vaxtabréfalán, að gjalddagi þeirra er að haustinu, í október eða nóvember, og bankarnir ganga aldrei að út af þessum lánum fyrr en 5, 6 eða 7 mánuðum eftir að þau eru fallin í gjalddaga. — út af greiðslum, sem falla í gjalddaga í okt. þ. a., verða bankarnir því ekki farnir að hreyfa sig, þegar þing kemur aftur saman að ári. Hér er því um að ræða einkum hann hluta lánsins, eða þá afborgun, sem fell í gjalddaga 1. október síðastl. og ekki hefir verið greidd, eða vexti, sem ekki hafa verið greiddir.

Það skal nú játað, að ég hefi ekki skýrslur um, hvað mikið er í útlánum í allt af þessum lántegundum, en eftir þeim athugunum, sem ég hefi gert um það, hvað sé í útlánum í veðdeildinni og Búnaðarbankanum, þá býst ég við, að það sé ekki meira en 500–600 þús. kr. í allt hjá þeim mönnum, sem þetta frv. nær til það er að segja, að afborganirnar séu ekki hærri árlega en það, en sennilega miklu lægri. Og það er víst, að mikill hluti af þeirri upphæð er greiddur. Mér er kunnugt um, að þrátt fyrir erfiðleikana, þá er það hreint furða, hvað borgazt hefir inn í Búnaðarbankann í haust. Mér er ekki að sama skapi kunnugt um þetta að því er veðdeildina snertir, en ég er sannfærður um það, að það hefir mikið verið greitt og að mikið verður greitt ennþá af þessum árgjöldum. Nú veit ég, að margir af þeim, sem ekki hafa greitt, falla ekki undir þessi lög. Og ýmsir menn, sem ekki eiga fyrir skuldum, flosna upp og njóta því ekki verndar þessara laga. Það er líka víst, að ýmsir, sem gætu komið undir vernd þessara laga, hirða ekki um það eða vilja það ekki. Þessi upphæð, sem um er að ræða, verður ekki til næsta þings neitt veruleg. Og ef ég væri fjmrh., þá væri ég ekki hræddur við að taka við þessari heimild eins og hún er hér. Það getur ekki verið nema um smámuni að ræða í hlutfalli við annað, sem á herðum ríkissjóðs hvílir. Ég held því, að ótti hæstv. fjmrh. út af þessu sé mjög ástæðulítill. En auðvitað er það ekki nema gefinn hlutur, að n. er fús til þess að taka þetta atriði til betri athugunar og mun gefa honum kost á að koma á fund til sín. Því tel ég mér óhætt að lofa fyrir hönd nefndarinnar.

Þá er það ákvæðið í seinni málsgr. 16. gr. Ég skil svo hennar orðalag, að þær lánsstofnanir, sem þar um ræðir, geti ekki farið fram á það við fjmrh. að fá hjálp, nema þær sýni, að það sé vegna þessara laga, sem þær eru komnar í örðugleika. Að öðrum kosti er það sú almenna skylda, sem fjmrh. hefir til að hjálpa lánsstofnunum, sem verður að koma til greina. En sú skylda hvílir nú í rauninni á fjmrh. að hjálpa lánsstofnunum, ef hann álítur rétt og telur það kleift. En hér um ræðir einungis það, sem verður vegna þessara laga. Til þess að lánsstofnunin geti sýnt fram á það, verður hún að sýna, að svona mikið hafa skilan. úrskurðað um gjaldfrest, sem henni viðkemur, því ef hún veitir mönnum frest og skuldunautur hefir ekki farið fram á vernd þessara laga, þá getur hlutaðeigandi lánsstofnun ekki farið til ráðh. út af slíkum skuldum, því að þá er það ekki þessum lögum að kenna, þó að hlutaðeigandi borgi ekki. Það er aðeins um það að ræða, sem skilan. hefir veitt frest á, og það verður ekki næsta mikil upphæð. Nú kynnu menn að segja, að eftir þessar skýringar verði ekki mikið gagn að lögunum. En ég tók það fram í byrjun, að ég heldi, að aðalgagn laganna yrði það, að skuldheimtumenn gengju ekki að skuldunautum sínum. Þetta sýnir, að lög um þetta efni mundu samt sem áður ekki vera þýðingarlaus. Ég held þess vegna, að hæstv. ráðh. sé óþarflega varasamur í þessu efni. Þessi lög koma í gildi seinast í maí. Það yrði því ekki fyrr en í júlí eða ágúst í fyrsta lagi, sem hægt yrði að byrja framkvæmdir eftir þeim. Það er auðvitað, að ýmislegs er að gæta, þegar farið er inn á löggjafarsvið eins og þetta. Það verður að gæta þess að eyðileggja ekki annarsstaðar með því, sem verið er að varðveita. Það hefir komið fram hér í ræðum, að sumpart þykir ekki nógu langt gengið og sumpart of langt. Þetta er nokkur trygging fyrir því, að n. kunni að hafa ratað meðalhófið, sem hér verður að vera.

Þá nefndi hæstv. ráðh. 18. gr., um það, að kostnaðurinn af framkvæmd þessara laga skyldi greiðast úr ríkissjóði, eftir reikningi, sem fjmrn. úrskurðar. Ég hafði hugsað mér það, að í reglugerð, sem atvmrn. á að setja, mundi fjmrh. sjá um, að kæmi ákvæði til að fyrirbyggja það, að reikningarnir fyrir þessi störf yrðu óhæfilega háir. Með tilliti til þess fannst n. 18. gr. ekki vera óvarlega orðuð.

Hæstv. ráðh. gerði dálítið háð að því, að ég væri ekki smeykur við að setja á stofn 30 n. til að auka útgjöld, en ég væri smeykur við eina n., sem ætti að auka tekjur. Þetta lítur vel út, þegar það er sett svona fram, en ekki eins vel, þegar það er skoðað niður í kjölinn. Ég vil benda á það, að ekki er verið að leika sér með því að setja þessa n., heldur er það bláköld nauðsyn, sem knýr til þess. Ég held ekki, að kostnaðurinn af þessu verði svo ákaflega mikill. En ég vil gjarnan taka til athugunar till. hæstv. ráðh., að héruðin beri eitthvað af þessu.

Ég hefi litlu að svara hv. 3. þm. Reykv. Honum fannst engin nauðsyn fyrir frv. og ekki mikið gagn, sem af því gæti orðið. Ég sé ekki ástæðu til að deila um það við hann og læt það atriði alveg liggja. En hitt verð ég að segja, að ég skil ekki, þegar hann heldur því fram, að það geri ekkert til, þó að við tölum um það, bara ef við samþ. Það ekki. Hann álítur réttara að taka alla skuldasúpu landsmanna í heild og gera upp og gefa svo eftir það, sem þyrfti. Ég held, að tímarnir nú séu heldur óheppilegir til þess. Hv. þm. segir, að frv. sé til þess að hjálpa þeim efnuðu. Það er misskilningur eða annað verra, því að frv. hleypur ekki undir bagga með neinum, sem getur borgað, heldur aðeins þeim, sem vegna kreppunnar geta ekki borgað, en teljast þó eiga fyrir skuldum.