17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

2. mál, fjáraukalög 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. lauk máli sínu með því að tala um, að hann hefði enga áreitni sýnt í umr. Ég hefi heldur ekki áreitt hann. Ég minntist hans einmitt lofsamlega og er sammála honum um, að það sé ef til vill réttast að gera stj. að skyldu að leita heimildar í aukafjárlögum fyrir allar umframgreiðslur an nokkurra undantekninga. Ég býst við, að það ætti að geta orðið hvöt fyrir hverja stj., til þess að semja sem réttust fjárl.; því það er mjög ósanngjarnt gagnvart einni stj., að hún þurfi að leita heimildar í aukafjárlögum fyrir óhjákvæmilegar greiðslur. Ég skal játa, að þó getur verið um að ræða eina dálitla hættu í sambandi við slíkt fyrirkomulag. Stjórn, sem þetta vissi, gæti orðið óþarflega frek í kröfum um fjárveitingar í fjárl., og ef hún fengi þeim kröfum framgengt, þá gæti þar skapazt óþörf eyðsla. Ég held þó, að miklu heppilegra sé að gera sér sem ljósasta grein fyrir þörfunum þegar fjárlög eru samin, en fylgja þeim svo strangt, svo að stjórnarliðið þurfi ekki á hverjum tíma að leggja blessun sína eftir á yfir afskaplega mikla heimildarlausa fjárbrúkun stj., heldur að allir flokkar gæti orðið sammála um að vita þá eyðslu, sem færi fram yfir fjárlög.

Ég gerði í fyrstu ræðu minni samanburð á þessum fjáraukalögum og fjáraukalögunum 1920–21 og sýndi fram á þann mikla mun, hvað þessi fjáraukalög færu langt fram úr hinum. Fjáraukalögin 1920—21 eru þó þau, sem mest hafa verið vítt af andstæðingum þáv. stj. Ef tekið er til dæmis það blað, sem aðallega mælti móti þeim fjáraukalögum með hvíldarlausum árásum á stj. næstu árin út af afgreiðslu þeirra og allan síðastl. áratug hefir þeytt úr sér vonskugusum út af þeim, þó það hafi verið margsýnt og sannað, að þær umframgreiðslur voru nálega eingöngu afleiðingar ófyrirsjáanlegra breytinga á fjármálasviðinu, þá er það ljóst, að núv. stj. á þyngri dóm skilið fyrir fjáraukalögin frá 1930. Þá var þó ekki um að ræða neina breytingatíma eða óviðráðanlega og ófyrirsjáanlega hækkun útgjalda ríkissjóðs, og þó er útkoman sú, að fyrir þetta eina ár eru fjáraukalögin hærri heldur en áður hafði orðið hæst á tveimur árum. Hv. frsm. meiri hl. fann ekki ástæðu til að ásaka stj. fyrir það, þótt hún hefði flýtt ýmsum framkvæmdum meir en Alþingi hefði ætlazt til, úr því að það var hægt. Þar til er því að svara, að fyrir það fyrsta er nú fjárveitingarvaldið hjá Alþingi. Í öðru lagi er nú sýnt, að ríkissjóður þoldi ekki þessi auknu útgjöld; ég held ástandið nú sýni það svo glöggt, að varla sé hægt að fá það ljósara, þetta ástand, sem er afleiðing af fjársóuninni, kröfur um nýjar, háar skattalögur á þrautpínda gjaldþegna, álögur, sem engin þörf væri fyrir, ef stj. hefði farið eftir boðum Alþingis, því þá hefði nú verið nóg fá, en ekki eins og hæstv. fjmrh. hefir upplýst, að verða muni stórkostlegur rekstrarhalli á þessu ári. Það verða alltaf harðari ásakanirnar eftir á, ef reynslan sýnir, að stj. hefir stefnt út í beinan voða í fullkomnu óleyfi og banni Alþingis.

Það væri ástæða til að svara hinum almennu hugleiðingum hv. frsm. út af ágreiningi okkar. Hann sagði, að það væri ekki nema eðlileg skoðun allra íhaldsflokka að vera á móti framkvæmdum, og það virtist koma fram hjá honum sú skoðun, sem oft hefir heyrzt hjá hans flokki, að þjóðin væri í raun og veru miklu betur stödd í lífsbaráttunni fyrir þessa eyðslu heldur en ef féð hefði nú verið óeytt og minna hefði verið gert. En hér er um að ræða mun á grundvallarskoðunum, ekki um það, hvort rétt sé að gera mikið eða lítið, hvort eigi að leggja vegi og síma, byggja brýr og skóla eða ekki, heldur er ágreiningurinn milli okkar um það, hvaða aðferð eigi að fylgja um framkvæmdirnar. Hann og hans flokkur telur, að eina leiðin sé að fara sem geistast, taka allt, sem hönd á festir, til að hamast áfram, en við höldum því fram, að framkvæmdirnar og framfarirnar verði að koma hægt og eðlilega, við viljum fylgja hinni almennu reglu góðra búmanna, að stilla öllu í hóf og miða við gjaldþol og getu. Hvers vegna notar ekki hygginn búmaður þá aðferð að hrifsa í góðærinu alla þá peninga, sem hann gæti komizt yfir og setur þá í búskapinn? Af því hann veit, að það þýðir stöðvun næsta ár, ef harðara fellur, en ef sótt er fram í hófi, þá vinnst takmarkið jafnt og þétt og niðurstaðan verður öruggari. Þetta er munurinn á okkar stefnum. Þetta er svo í öllu. Við getum bara hugsað okkur eitt dæmi, tvo menn, sem ætla að þreyta kappreið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ég býst við, að þeir gerðu áætlun hvor um sig, hve mikils þeir gætu ætlað hestum sínum á hverjum degi, svo að þol og þróttur entist, en svo skyldi svo fara, að annar knapinn byrjaði á því að ríða af stað í spretti og fara þegar langt fram úr hinum, svo að hann væri kominn langt upp í Mosfellssveit, þegar hinn væri ekki kominn nema inn að ám. Ég er ekki í neinum vafa um, að margir bjánar mundu hrópa húrra fyrir þessum manni og dázt að honum. Við skulum segja, að hann héldi svona áfram allan daginn og væri kominn langt upp í Norðurárdal um kvöldið, þegar hinn væri ekki kominn nema eitthvað inn með Hvalfirðinum. En hvernig færi svo? Það er ekki víst, að aðdáendur þessa sólargapa yrðu alltaf jafnhrifnir. Þegar bykkjan springur undir honum fyrir hans forsjárlausa ofurkapp, þá verður minna úr aðdáendunum. En þetta er það, sem gerzt hefir hér hjá okkur, — bykkjan hefir sprungið undir stjórninni.

Við sjálfstæðismenn mótmælum ekki þörfinni fyrir verklegar framkvæmdir, vegi, brýr, skóla o. s. frv., en við teljum ekki ráðlegt að fara svo hart af stað, að land og þjóð liggi við að sligast undan framkvæmdunum, en nú er því miður svo komið. Nú þarf að pína lamaða gjaldþegna úr hófi fram, ef ríkið á að geta fullnægt nauðsynlegustu þörfum.