01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil bæta nokkrum orðum við það, sem ég hefi áður sagt út af 2. málsl. 16. gr., er hljóðar svo: „Ef aðrar lánsstofnanir, þar með taldir sparisjóðir, lenda í greiðsluörðugleikum vegna þessara laga, veitir ríkissjóður nauðsynlega hjálp á þann hatt, sem fjmrh. ákveður“. Sú hjálp, sem hér er um að ræða, takmarkast við áhrif þessara laga, en ekki þá menn eina, sem fá frest á að greiða lánsstofnunum afborgun af skuldum sínum, því að þeir menn, sem verða fyrir þessum lögum og geta ekki innheimt skuldir sínar, hvort sem það eru kaupmenn, kaupfélög eða einstaklingar, geta líka lent í greiðsluörðugleikum gagnvart sínum lánardrottnum. Ég er þó ekki að segja, að svo verði, enda má það ekki verða, að allir lendi í greiðsluörðugleikum og, velti þeim svo yfir á ríkissjóðinn. Þessi möguleiki getur því gert illt verra. Hann getur skapað ríkissjóði örðugleika, sem honum væru annars óviðkomandi.

Það er nú svo, að lán, sem veitt yrðu samkv. 16. gr., eiga að endurgreiðast, svo að út frá því má kannske segja, að þau eigi ekki að vera hættuleg fyrir ríkissjóðinn. Það má vel vera, að þau verði endurgreidd, ef verðlag á afurðum manna hækkar frá því, sem nú er, en lækki það enn eða standi í stað, þá eru þau hættuleg. Það má því ekki byggja þessa starfsemi á lánsfé, heldur verður að byggja hana á nýju fé, sem fengið er með nýjum tekjustofnum.