20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Pétur Ottesen:

Um það leyti, sem landbn. var að undirbúa þetta mál, leitaði hún álits Landsbankans, Búnaðarbankans og S. Í. S. um það. Það kom svar frá Landsbankanum og frá Búnaðarbankanum löngu síðar, og lögðu þeir á móti því, að nokkuð væri gert í þessu efni. Skriflegt svar kom aldrei frá Sambandinu, en hinsvegar hafa menn þaðan talað við form. landbn. um þetta atriði, og þau skilaboð, sem n. fékk þannig frá Sambandinu, eru þau, að það er alveg á móti því frv., sem búnaðarþingið hafði samþ. og sent til landbn., en að það gæti gengið inn u það frv., sem n. hefir flutt. Hinsvegar var málið ekki sent til álits Útvegsbankans. Mér verður þess vegna fyrir að líta svo á, að þær brtt., sem hv. 1. þm. Rang. hefir flutt hér, og þau ummæli, sem hann hefir viðhaft hér í sambandi við þetta mál, sé nánast að skoða sem álit Útvegsbankans í þessu máli. Hann sneri sér sérstaklega að því, sem tekur til bátaútvegsmanna, og finnst mér það líka geta stutt það, að hér sé um álit Útvegsbankans að ræða, því að ég veit, að hans viðskipti eru meira við þá, sem sjávarútveg stunda, en landbúnað. Ég verð að segja það, að sú nauðsyn, sem það byggist á, að gripið sé til slíkra ráðstafana sem í frv. felast fyrir landbúnaðinn, er og engu síður fyrir hendi gagnvart bátaútveginum. Þar sem hér er farið inn á nýja braut, og engin reynsla er fyrir hendi um framkvæmd slíkra ákvæða, sem í frv. felast, þá var n. Það alveg ljóst, að eigi var annað fært, líka hvað bátaútveginn snertir, en að miða framkvæmdirnar við nokkuð takmarkað svið. Þess vegna treysti n. sér ekki til að láta þetta ná til þeirra, sem hafa útgerð stærri bata en 30 smálesta. Það er einungis miðað við það, að takmarka sviðið sem mest, að n. gekk ekki lengra, en ekki af því, að henni væri ekki ljóst, að þeir, sem hafa útgerða stærri bata með höndum, gætu ekki þurft á þessu að halda, eða að ekki væri síður mikilsvert fyrir þjóðfélagið að gera eitthvað til að tryggja þeim mönnum, að þeir geti haldið áfram atvinnuvegi sínum.

Ég get ekki fallizt á þá rökfærslu hv. 1. þm. Rang., að þetta verði til skaða fyrir afkomu smábátaútvegsins. Ákvæði þessi samkv. frv. ná ekki til þeirra skulda, sem stofnaðar eru á þessu ári, einungis til þeirra, sem eru stofnaðar fyrir 1. jan. þ. a., og það er ekki ætlazt til, að 1. séu í gildi nema eitt ár. Hitt er rétt, að ef ákvæði laganna verða framlengd, þá gæti einnig komið til álita, hvort þau ættu að ná til skulda, sem stofnaðar eru á þessu ári eða síðar, og ekki hefir verið staðið í fullum skilum með. En það fer vitanlega eftir þeirri reynslu, sem l. gefa á því eina ári, sem þau eiga að gilda, hvort þau verða framlengd eða ekki.

Þá hélt hv. 1. þm. Rang. því fram, að vegna ákvæða þessara laga hefðu lánsstofnanir ekki eins góð tök á að líta eftir því, að veðin gengju ekki úr sér. En þetta er vitanlega misskilningur og stafar eflaust af því, að hv. þm. hefir ekki athugað 10. gr. frv., en þar stendur, að skilanefnd sé óheimilt að úrskurða skuldunauti frest á afborgunum, ef hann er líklegur til að nota frestinn til að rýra tryggingar skuldunauta sinna. Það fer því að vísu mikið eftir því, hvernig tekst með val á skilanefndunum og hversu fer um störf þeirra, en ef það tekst vel, sem gera verður ráð fyrir, þá er í þessum ákvæðum fólgin full trygging fyrir því, að veð þau, sem lánardrottnar hafa, gangi ekki úr sér.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að ákvæði þessa frv. stæðu í vegi fyrir því, að hægt væri að taka bata, sem væru að veði fyrir lánum, úr höndum eigenda og færa þá yfir á aðrar hendur. Ég tel nú þetta ekki útilokað eftir frv. En vitanlega þarf það ekki að fara saman, að maður, sem einhverra hluta vegna hefir orðið ófær í bili að standa við skuldbindingar sínar á erfiðum tímum, sé fyrir það ófærari en aðrir að stjórna því atvinnufyrirtæki, er hann hefir með höndum. Ýms atvik og óhöpp geta orðið þessu valdandi, þótt ekki sé viðráðanlegum mistökum við atvinnureksturinn um að kenna. Það geta verið annarleg atvik, eins og t. d. kreppan núna, sem eru að koma atvinnuvegunum á kné.

Hvað bátaútveginn snertir, þá er báturinn hið sama fyrir útgerðarmanninn og bústofninn fyrir bændurna. Ef atvinnutækin eru af þeim tekin, þá eru þeir þar með gerðir ófærir til að standa síðar við skuldbindingar sínar, og sá atvinnurekstur af þeim tekinn, sem er sjálfum þeim til lífsbjargar og til uppbyggingar fyrir þjóðfélagið.

Það hefir ekkert það komið fram hjá hv. 1. þm. Rang., sem afsannar, að smábátaútgerðin eigi einnig að njóta þeirra hlunninda, sem frv. Þetta skapar. Og það hefir heldur ekkert það komið fram hjá honum, er sanni, að það sé hættulegt.

Það má að vísu segja, að ákvæðin geti valdið nokkurri tortryggni fyrir lánsstofnanir, en meiningin með þessu er, að atvinnuvegirnir geti haldið áfram, ef þeir menn, sem komast undir ákvæði þessara laga, eru líklegir til þess að halda uppi atvinnurekstrinum síðar. Hér er úr brýnni þörf að bæta, þegar að steðja slík vandræði sem nú.

Ég vænti, að hv. deild geti fallizt á, að þörfin sé jafnbrýn báðum þeim aðiljum, er ákvæði frv. ná til eins og það er nú, og geti fallizt á till. landbn. um það.