20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi áður gert grein fyrir brtt. minni á þskj. 358 og stend því upp til að þakka hv. landbn. fyrir það, að hún mælir með henni.

Annars vil ég segja það um frv., að þótt ég greiði því atkv. í þeirri von, að það geti orðið einhverjum að gagni undir sérstökum kringumstæðum, þá er þó sú skoðun mín óbreytt, sem ég lét í ljós við 1. umr. frv., að ég efast um, að þetta frv. komi að almennu gagni, þó að samþ. verði. Ég fylgi því aðeins fyrir þá sök, að það virðist vera hið eina, sem hægt er að gera eins og nú er ástatt. Ég benti á það við 1. umr., að yfirleitt væri ekki gengið að skuldum eins og nú stendur. En það er ekki fyrr en gengið er að höfuðstólnum, sem þetta bjargar. Bændur munu nú vera erfiðast staddir vegna þeirra greiðslna, sem frv. nær ekki til, en það eru vextir af skuldum og ýms opinber gjöld, einkum sveitargjöld.

Ég veit að vísu, að ekki þýðir um þetta að tala. Ástandið batnar ekki við það. En ég gat þó ekki látið hjá líða að benda á það, að frá mínu sjónarmiði er hér ekki um neitt bjargrað að ræða, nema þá fyrir sárafáa einstaklinga. Hinsvegar er rétt, úr því þessi lög eru sett, að þeir menn, sem samkv. minni till. eiga að komast undir ákvæði l., verði einnig aðnjótandi þeirra hlunninda, ef nokkur eru, sem þau hafa að bjóða. Hefir hv. landbn. sýnt velvilja með því að fallast á brtt. mína.