20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Bjarni Ásgeirsson:

Ég kemst í vanda með að greiða atkv. um þau ákvæði frv., er snerta bátaútveginn, þegar maður, er hefir jafnmikla þekkingu á þessum málum og hv. 1. þm. Rang., hefir lagzt jafneindregið gegn því, að ákvæði þessa frv. séu látin ná til sjávarútvegsins. En þótt ég meti mikils þá þekkingu, sem hv. 1. þm. Rang. hefir á þessu, þá get ég samt ekki metið minna skoðun þeirra manna, sem nánasta þekkingu hafa á þeirri grein útvegsins, smábátaútgerðinni, sem hér er um að ræða. Þegar frv. Þetta lá fyrir landbn. og var þar í smíðum, kom till. frá hv. 1. þm. S.-M., þar sem hann lagði til, að bátaútvegurinn væri tekinn með. Samskonar tilmæli komu frá hv. þm. Borgf., sem telja verður fulltrúa bæði fyrir landbúnaðinn og líka smábátaútveginn. Ég verð því að segja, að ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með brtt. hv. 1. þm. Rang., gegn till. og yfirlýstum vilja þeirra hv. þm. er ég nefndi, og sem verður að telja eigi síður kunnuga bátaútveginum en hv. 1. þm. Rang. Býst ég því við að greiða atkv. móti brtt. hans.

Ég vil leyfa mér að leiðrétta ummæli hv. þm. Borgf., þau, sem hann viðhafði um afstöðu bankanna og Sambands ísl. samvinnufélaga til þessa frv. Það var álit okkar, að þessir þrír aðilar, Búnaðarbankinn, Landsbankinn og S. Í. S., ættu mest í húfi gagnvart þessu frv. að því er landbúnaðinn snerti. Við óskuðum því eftir áliti þeirra. — Búnaðarbankinn sendi álit sitt og gerði till. til breyt., sem landbn. tók til greina. Landsbankinn lagði á móti frv. Sambandið sendi ekki skriflegt álit. En ég átti tal við forstjórann og lagði fyrir hann bæði frv. búnaðarþings og frv. landbn. eins og það var þá. Það var ekki rétt, að S. Í S. hefði lagt á móti frv. sem heild, heldur gerði það aths. við einstök atriði, sem svo voru tekin til greina af landbn. Er því ekki rétt, að S. Í. S. sé á móti frv. eins og það er nú, heldur er það því sammála.

Forstjóri S. Í. S. spurði mig að því, hvort ég óskaði eftir skriflegu áliti frá þeim. Ég áleit ekki horf á því. Kvaðst geta skilað þessu til landbn.