18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Halldór Steinsson:

Ég get ekki léð þessu frv. fylgi mitt, og það aðallega af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi sé ég ekki neina knýjandi ástæðu fyrir hendi til þess að lögleiða þessa ráðstöfun. Í öðru lagi mundi frv. ekki koma að neinum verulegum notum og þeir fara á mis við gæði þess, sem kannske helzt þyrftu þeirra við. Í þriðja lagi mundi slík ráðstöfun áreiðanlega hafa í för með sér glundroða og óreiðu í viðskiptalífinu. Ég skal reyna að færa rök fyrir þessum ástæðum. Ég sé ekki neina knýjandi þörf til þess að setja slíka löggjöf nú. Því er borið við, að þetta séu krepputímar. En á krepputímum ganga lánsstofnanir, eins og hv. 4. landsk. hefir tekið fram, yfirleitt ekki hart að mönnum, því að hvað þýðir á slíkum tímum, þegar veð eru verðlítil og e. t. v. óseljanleg, að ganga að veði ? Það gerir enginn hagsýn kaupsýslumaður eða lánardrottinn. Þess vegna þarf ekki um það að deila, að í slíku árferði er undantekning, að lánardrottnar gangi hart að skuldunautum, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir skaða sjálfa sig eins mikið, ef ekki meira en skuldunautinn. Í þessu frv. eru nú vextir undanþegnir; og þegar svo er, þá álít ég ekki neina þörf á því að lögleiða gjaldfrest á afborgunum, af þeim ástæðum, sem ég hefi ná talið.

Þá kem ég að annari ástæðunni, að þessi gjaldfrestur muni ekki koma að neinum verulegum notum og þeir fara á mis við hann, sem helzt þyrftu hans með. Því verður ekki neitað, að hér á landi er fjöldi manns, og óhætt að fullyrða, að það er mikill meiri hluti atvinnurekenda, sem á ekki fyrir skuldum, og því verður tæplega neitað, að þessi fátækari hópur landsmanna á miklu erfiðara uppdráttar heldur en hinir, sem eiga fyrir skuldum. En einmitt þessir menn, sem helzt þyrftu þessa með, eru réttlausir, þeir njóta engra gæða, sem frv. gerir ráð fyrir. Lánstraust manna á meðal fer að miklu leyti eftir áreiðanleika þeirra, en að mestu leyti eftir efnahag þeirra, og sá, sem á eigur fram yfir skuldir, þarf aldrei að óttast, að gengið verði hart að honum. Hann getur undir venjulegum kringumstæðum komizt að viðunandi samningum við lánardrottin. En öðru máli er að gegna með fátæka manninn, sem á minna en ekki neitt. Hann má heita réttlaus gagnvart lánardrottni og honum er ennþá tilfinnanlegra, ef það litla, sem hann hefir með höndum, er skert eða tekið af honum. Það getur hreint og beint orðið til þess að koma honum á vonarvöl, en það á sér sjaldan stað, þótt gengið sé að þeim, er á eignir umfram skuldir.

Þá kem ég að þriðju ástæðunni. Það er engum blöðum um það að fletta, að ef þessi ákvæði verða að lögum, þá mundi það hafa í för með sér talsverðan glundroða og ýms höft í viðskiptalífinu. Ef þessi gjaldfrestur kemst á, þá verða lánardrottnar, bæði lánsstofnanir og aðrir, yfirleitt varkárari með útlán. Því að þótt gert sé ráð fyrir því, að þetta standi aðeins í eitt ár, þá munu flestir lánardrottnar líta svo á, að úr því einu sinni er gengið inn á þessa braut, þá muni hætta á, að til þessa ráðs verði gripið aftur og aftur, og á hann hátt geta skuldir orðið meira og minna verðlausar. Þetta er fyrirsjáanleg afleiðing af þessu fyrirkomulagi. Það sjá allir, hvað það hefir í för með sér, ef lánstraust rýrnar að miklum mun, því viðskipti manna á meðal byggjast að mestu leyti á lánum til styttri eða lengri tíma, og ef ráðstöfun verður gerð, sem miðar í þá átt að draga úr lánstrausti, þá verður það til að gera ástandið verra, eða m. ö. o. að auka á kreppuna. Að þessu leyti lít ég svo á, að frv. verki öfugt við það, sem því er ætlað. Þá er nokkur hætta á því, að þessi l. gætu orðið misnotuð með tilliti til þess, að það mundu sjálfsagt margir reyna að smeygja sér undir l., sem gætu án þess að taka nærri sér staðið í skilum með skuldir.

Þá skal ég koma að öðru atriði, og það er, hvaða áhrif þetta hefir á minni lánsstofnanir, t. d. sparisjóðina. Það er enginn vafi á því, að slíkur gjaldfrestur mundi mjög veikja og draga úr vexti slíkra smærri lánsstofnana. Þar sem engar öryggisráðstafanir eru settar gagnvart þeim í frv., eins og gert er ráð fyrir að því er bankana snertir. Bankarnir hafa þó nokkra tryggingu gegn þeim örðugleikum, sem þeir kynnu að verða fyrir af völdum þessara 1. Sparisjóðirnir eiga nú yfirleitt erfitt uppdráttar. Eins og skiljanlegt er á þessum erfiðu tímum, þá taka innieigendur út fé sitt, af því þeir þurfa að lifa á því. Á svona krepputímum minnkar innieign áttanna og vanskil vaxa á afborgunum og vöxtum til þessara sjóða. Þegar svo ofan á þetta bætist lögleiddur gjaldfrestur, þá hljóta allir að sjá, að þetta þrengir mjög að þessum lánsstofnunum. En þegar svo er komið, að sparisjóðir eða minni lánsstofnanir geta ekki borgað út fé innieignarmanna, þegar það er heimtað, þá fer traustið að verða lítið á slíkum stofnunum. Menn hætta að leggja þar inn sparifé sitt og taka það út og leggja það á staði, þar sem þeir geta gripið til þess, þegar þeir þurfa á því að halda. Þegar svo er komið, má segja, að sparisjóðirnir séu búnir að lifa, því að varasjóðir þeirra eru sjaldnast svo öflugir, að hægt sé að halda áfram nokkrum verulegum viðskiptum með þeim.

Í 1. gr. frv. er tekið fram, að þessi gjaldfrestur nái ekki til annara skulda en þeirra, sem stofnaðar eru vegna landbúnaðar eða sjávarútvegs. Í þessu ákvæði felst, eins og hv. frsm. minni hl. réttilega hefir tekið fram, mjög mikið misrétti gagnvart öðrum stéttum þjóðfélagsins, sem sjálfsagt engu síður þyrftu þessara hlunninda við en þessar tvær stéttir. En svo er allmikil hætta á því, að þetta ákvæði verði bæði misskilið og misnotað, því að atvinnuvegir okkar eru svo, að menn binda sig oft ekki við neina vissa atvinnugrein. Sami maðurinn getur nokkurn hluta ársins stundað útveg, en hinn tímann aftur aðra atvinnu. Bóndinn getur auk búskaparins stundað aðra atvinnu, t. d. haft sveitaverzlun eða stundað smíðar. Maður, sem er barnakennari á vetrum, ef e. t. v. útvegsmaður á sumrin. þannig er hægt að benda á mörg tilfelli úr daglega lífinu. Í öllum slíkum tilfellum gæti orðið vafamál, hvort þessir menn heyrðu undir l., og það er a. m. k. enginn vafi á því, að þetta mundi verða talsvert misnotað. Þegar þess vegna á allt er litið, þá verð ég að líta svo á, að þó að þessi ákvæði verði að l. og þótt fámennur hópur landsmanna kynni að hafa einhver not af þeim, þá muni þessi gjaldfrestur hinsvegar baka fjölda annara skuldunauta, sem eru auðvitað margfalt fleiri, aukna viðskiptaörðugleika, sem verður til þess að draga úr lánstrausti og til þess að veikja allar minni lánsstofnanir landsins, og yfirleitt held ég, að slík lög yrðu frekar til þess að auka á en draga úr óreiðu og óskilvísi í viðskiptum manna á meðal. Þegar svo stendur á, að kostirnir við þetta frv. eru hverfandi litlir samanborið við gallana, þá get ég ekki léð því fylgi mitt.