18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Halldór Steinsson:

Hæstv. forsrh. kannaðist við það, sem ég hélt fram, að ekki væri þörf á að lögleiða þennan gjaldfrest vegna hinna stærri lánsstofnana, banka og sparisjóða, en hinsvegar væri hætta á því, að smærri verzlunarfyrirtæki yltu um á þessum tímum og gengju að mönnum, og þeirra hluta vegna væri þörf á að setja þau lög. Ég get að mörgu leyti viðurkennt þetta, en ég hygg, að margir þeir, er mikið skulda við verzlunarfyrirtæki, séu þannig efnum búnir, að þeir geti ekki fallið undir vernd þessa frv., þó að lögum yrði, enda mun frv. hafa verið samið með tilliti til lána við banka og aðrar stærri lánsstofnanir frekar en til lána við verzlanir. Það hefir heldur ekki komið fram undir umr. fyrr en nú, að það væri miðað við annað, og hæstv. ráðh. viðurkenndi líka með mér, að ekki væri þörf þeirra vegna að gera þessar ráðstafanir, því að þær myndu ekki ganga hart að mönnum á þessum krepputímum.

Hv. frsm. sagði, að ég hefði haldið því fram, að engin þörf væri þessara ráðstafana nú og að ekkert gagn myndi verða að þeim. Þetta sagði ég alls ekki, heldur hitt, að engin knýjandi þörf væri á því, og þessar ráðstafanir bæri ekki að gera nema knýjandi þörf væri fyrir hendi. Þá sagði ég ekki heldur, að engin not gætu orðið að frv. Ég sagði, að tiltölulega fáir nytu góðs af því móts við alla hina, sem engin not gætu af því haft.

Þá hneykslaðist hann mjög á því, að ég hafði sagt, að frv., ef að lögum yrði, gæti jafnvel orðið til þess að auka vanskil hjá mönnum. Ég henti aðeins á, að ekki væri útilokað, að menn reyndu að smeygja sér undir ákvæði þess, sem gætu staðið í skilum án þess að ganga of nærri gjaldþoli sínu.

Þá misskildi hann það, sem ég sagði um sparisjóðina. Ég hélt því fram, að þar sem sparisjóðir ættu erfitt uppdráttar á þessum krepputímum, þegar fylgdist að úttekt á innieignum og minnkandi greiðsla á vöxtum og afborgunum, þá myndi þessi gjaldfrestur verða til þess að þrengja enn meir að kostum þeirra.