26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Þorláksson:

Út af afstöðu ábyrgðarmanna vil ég taka það fram, að í 4. gr. frv. er ákveðið, að ekki megi ganga að ábyrgðarmönnum skuldunauts á tímabilinu frá því að skilanefnd hefir borizt beiðni um gjaldfrest á skuldum, sem lög þessi ná til, og þar til úrskurður skilanefndar um, að frestur verði ekki veittur, er fallinn. Það er auðvitað meiningin, að ekki megi ganga að ábyrgðarmönnum eftir að skilanefnd hefir ákveðið gjaldfrest, en það stendur hvergi í frv., og ætti ákvæði um það að vera í 11. gr.

Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt. við 16. gr., þar sem farið er fram á, að á eftir orðunum „og verða bú þeirra þá ekki tekin til gjaldþrotaskipta að þeim nauðugum“ verði bætt við: og eigi gert fjárnám í eignum þeirra. Málsliðurinn mundi þá orðast svo: og verður bú þeirra þá ekki tekið til gjaldþrotaskipta að þeim nauðugum og eigi gert fjárnám í eignum þeirra, meðan lög þessi eru í gildi.

Mér finnst þetta vera svo öldungis sjálfsögð afleiðing af þeim skuldagreiðslufresti, sem frv. er ætlað að veita skuldunautum fyrirtækjanna. Og það er ekkert svar við þessu hjá hv. 3. landsk., þó að hann haldi því fram, að það verði ekki gengið að verzlunarfyrirtækjum meðan þau eiga fyrir skuldum. Því að það getur vel verið, að mikill hluti af eignum kaupmanna og kaupfélaga sé í útistandandi skuldum, sem veittur hefir verið gjaldfrestur á. Og hvar er þá verndin gegn því, að ekki verði gengið að þessum fyrirtækjum, þegar víxlar falla á þau, þannig að handhafar víxlanna geti ekki látið þau leggja sér út þær eignir, sem aðfararhæfar eru? Mér finnst sjálfsagt, að þessi vernd nái eins til þeirra stofnana, sem ekki geta innheimt útistandandi kröfur sínar, eins og til einstaklinga þeirra, sem ekki geta svarað út þessum kröfum. Hið fyrra er eðlileg afleiðing af því síðara.

Verði síðari brtt. n. samþ., á þskj. 754, við 16. gr., en ekki brtt. mín, þá greiði ég atkv. á móti 16. gr. í heild, því að ég álít, að hún eigi þá ekki heima í frv.