26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Jónsson:

Ég skil ekki, hvað hv. 1. landsk. getur býsnazt yfir niðurlagi 16. gr. Ég held, að það geti orðið talsvert hættulegt fyrir verzlunarfyrirtæki, þannig að það veiki lánstraust þeirra erlendis, ef þau geta skotið sér undir lögin. En ég held, að það sé lítil hætta á, að verzlunarfyrirtæki stöðvist vegna þess, að gjaldfrestsákvæðin verði misnotuð af bændum, sem skulda þeim. Og ég vona, að bændur noti þau ekki nema brýna nauðsyn beri til. — Annars vill það nú svo vel til, að það eru ekki mikil brögð að því, að önnur verzlunarfyrirtæki en kaupfélögin eigi stórar fjárhæðir útistandandi hjá bændum. Ég held, að það sé ekki hættulegt að samþ. brtt. n., en með henni er verzlunarfyrirtækjum gerður mikill greiði.

Hv. 2. landsk. sagði, að gjaldþrotaskipti hefðu sömu afleiðingar í fór með sér fyrir verkamenn eins og bændur, þannig að heimili þeirra mundu leysast upp, en það skil ég nú satt að segja ekki. Ég vil benda honum á, að margur bóndinn verður að baslast áfram með minna verðmæti í húsmunum en það, sem gjaldþrota einstaklingum er frjálst að halda eftir samkv. lögum um aðför. Og í flestum tilfellum gætu verkamenn fengið beina eða óbeina aðstoð, t. d. frá bæjar- eða sveitarfélögum, til þess að halda uppi heimili sínu, en hitt er erfiðara, að fá bændum bústofn í hendur til þess að halda áfram atvinnurekstri sínum. (JBald: Hv. þm. gefur verkamönnum ávísun á framfærslusveit sína). Að vissu leyti, sveitar-og bæjarfélög geta greitt fyrir þeim með því að veita atvinnu, og eins og löggjöf okkar er nú háttað, þá þurfa verkamenn ekki að leysa upp heimili sín, þó þeir leiti stuðnings frá sinni sveit.

Þá talaði hv. 2. landsk. um, að ef skilanefnd væri í hverju héraði, væri hætt við, að þær reyndust hlutdrægar. En þar sem atvmrh. á að skipa formenn nefndanna, þá er ekki sérstök hætta á, að þeir verði hlutdrægir. En hinsvegar er það ekki útilokað, þó að ein n. verði skipuð fyrir allt landið, að hún geti orðið hlutdræg, en vera má, að hv. þm. búist til, að hún beiti hlutdrægni lánsstofnunum í vil. — Mismunurinn á því að hafa eina skilanefnd fyrir allt landið eða nefnd í hverju héraði er sá, að héraðsnefndir hafa miklu betri skilyrði til þess að dæma af kunnugleik um hag skuldamannanna.