26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Halldór Steinsson:

Ég verð að segja, að lengi getur vont versnað, þegar miðað er við þær brtt., sem hv. n. flytur við frv. Ég benti á það við 1. umr. málsins, að það væri engin knýjandi ástæða til að setja þessi lög, enda kæmu þau ekki að notum þeim mönnum, sem hafa mesta þörf fyrir gjaldfrest og ekki eiga fyrir skuldum. Ég álít, að þessi lög muni leiða til truflunar og tregðu í viðskiptalífinu, og ég tel enn meiri ástæðu til að mótmæla þeim nú, þar sem það kemur greinilega í ljós eftir brtt. n., að bátaútvegsmenn eiga að vera útilokaðir frá þeim hlunnindum, sem l. er ætlað að veita, og að þau eiga að einskorðast við bændur, sem stunda landbúnað aðallega. Þetta er ójöfnuður og misrétti, að taka örfáa bændur út úr, þá, sem bezt eru stæðir og eiga fyrir skuldum, og veita þeim þessi fríðindi, en útiloka hina. Og ég trúi því ekki fyrr en ég má til, að þeir bændur, sem eiga sæti hér á Alþingi, neyti aflsmunar til að koma þessum lögum fram, jafnranglát og þau verða eftir að brtt. n. verða samþ.

Þegar brtt. koma til atkv., mun ég fylgja till. hv. 2. landsk. Mér finnst það sanngjarnt, að gjaldfresturinn nái til ógreidds verkakaups eða aflahlutar.

Hv. 3. landsk. lét svo um mælt, að þetta frv. væri mikilsverð kreppuráðstöfun. Ég hefi nú áður sýnt fram á, að það mundi koma að litlum notum, þótt að lögum yrði. Hv. þm. sagði, að þessi ráðstöfun væri til styrktar atvinnurekstrinum í landinu, en eftir brtt. n. er hér aðeins um landbúnaðinn að ræða, og það er eins og hv. þm. viti ekki af öðrum atvinnurekstri hér á landi. En ég vil út af því benda honum á, að ef litið er á útflutningsskýrslur frá síðastl. ári, þá nemur allur útflutningurinn ca. 45 millj. kr., og af því eru landbúnaðarafurðir aðeins 4–5 millj. kr. Ég vil því biðja hv. þm., þegar hann minnist næst á atvinnureksturinn í landinu; að gleyma þá ekki alveg öðrum aðalatvinnuveginum.

Hv. þm. endaði ræðu sína mjög hátíðlega og kvað þannig að orði, að þegar þingið væri nú búið að sitja í 100 daga, þá mætti varla minni árangur af því verða en að það afgreiddi í lagaformi þetta frv., sem ætti að hjálpa bændum út úr kreppunni. Sér er nú hver hjálpin. Ég held einmitt, að ef frv. verður að lögum, mundi sá dómur verða staðfestur, að þetta langa þing sé eitt hið ómerkilegasta á síðari árum, enda fannst mér hv. 3. landsk. komast í hálfgerða mótsögn við sjálfan sig, þar sem hann taldi, að ef kaupmenn kæmust undir þennan greiðslufrest, þá mundi það stórspilla lánstrausti þeirra erlendis. En ég vil spyrja hv. þm.: Ef greiðslufresturinn spillir svo mjög lánstrausti kaupmanna, getur hann þá ekki spillt lánstrausti bænda? ég hefi áður lyst því yfir, að ég mundi greiða atkv. gegn þessu frv., en þó verð ég að segja, að ég álít það enn lítilfjörlegra og minna um það vert, ef brtt. n. verða samþ.