26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Jónsson:

Hv. þm. Snæf. endaði ræðu sína á því, að ég hefði haft hátíðleg orð um það, að ekki mætti slita þessu þingi an þess að samþ. þetta frv., sem sérstaklega ætti að hjálpa landsbúum nú í kreppunni. En ég komst ekki þannig að orði; ég sagði, að þetta væri eina tilraunin, sem þingið ætlaði að gera fyrir bændur til aðstoðar í kreppunni. Annað sagði ég nú ekki. En ég játa, að þetta er og lítilfjörlegt, og að það hefði verið æskilegt að gera meira í því efni, ef hægt væri.

Hv. þm. hélt því fram, að ég sæi ekki nema landbúnaðinn og talaði aðeins um hann eina atvinnuveg. En ég vil benda honum á, að 40% af þjóðinni lifa nú á landbúnaði, og það er ekki svo lítið. Hinsvegar vil ég ekki ganga inn á það, að þetta þing hafi lokað augunum fyrir þörfum hins aðalatvinnuvegarins í landinu; ég hygg, að það hafi einmitt gengið miklu lengra í því að greiða fyrir sjávarútveginum, þar sem það nýskeð veitti heimild til þess, að ríkið tæki ábyrgð á 2 millj. kr. lán fyrir Útvegsbankann til rekstrar útveginum. Það væri sannarlega til að kóróna aðgerðaleysi þingsins í málum bændanna og landbúnaðarins, ef þetta litla frv. verður drepið, sem á að hjálpa heim. Hv. þm. sagði, að það væri ósamræmi í því hjá mér að vilja ekki veita kaupmönnum gjaldfrest eins og bændum, af því að það mundi spilla lánstrausti þeirra út á við. Ég sé ekkert ósamræmi í því, þó að gjaldfresturinn rýri lánstraust kaupmanna fremur en bænda. Skuldaskipti bænda eru öll hér innanlands, þar sem viðskiptamennirnir þekkja hver annan, en verzlunarfyrirtæki hafa viðskipti við útlönd og þurfa á lánstrausti að halda þar, sem erfitt er að varðveita og að því leyti getur frv. haft hættu í för með sér fyrir þá. Greiðslufresturinn á fyrst og fremst aðeins að ná til þeirra skulda, sem bændur höfðu stofnað til fyrir áramót 1931 og '32, en engin slík takmörk eru ákveðin í 16. gr. frv. að því er snertir skuldir verzlunarfyrirtækja.