28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 4. landsk. minntist á það, að bankastjórar bankanna hér í Rvík hefðu eindregið lagzt á móti því að sett yrðu lög slík sem þessi. Það er rétt, að bankastjórarnir lögðust mjög á móti frv. eins og það var, þegar það kom fyrst til d., og það er rétt, að í raun og veru hefðu bankastjórarnir helzt kosið, að engin lög hefðu verið sett í þessa att. En þó undirbjuggu þeir sjálfir frv. til l., sem þeir síðan sendu landbn., og gengur það mjög í sömu átt sem frv. Þetta gerði, að því leyti, að það gerir ráð fyrir gjaldfresti á gömlum skuldum landbænda. Ég hygg því, að jafnvel þótt allir bankastjórarnir hér í Rvík hefðu helzt kosið, að ekki væru selt lög í þessa att, munu þeir þó hafa álitið, að lög eitthvað lík því frv., sem hér er á ferðinni, væri þó helzt ástæða til að setja. Annars skilst mér vera svo um þetta frv., að það sé tilraun til þess að verða að liði, án þess þó að hafa til þess verulega getu. Það er vitanlega rétt, sem hv. 2. landsk. hefir bent á, að það væri miklu æskilegra fyrir þá, sem eru skuldugir — en það er allur fjöldinn af landsmönnum —, ef ríkið gæti lagt fram peninga, sem notaðir yrðu á þann hatt að strika út skuldirnar. En ég álít, að á þessu stigi vanti svo fjarska mikið á, að þingið hafi undirbúning undir þær ráðstafanir. Fyrst og fremst vita allir, að ríkið er bæði peningalítið og e. t. v. lánstraustslítið, enda yfirleitt talið heppilegt að þurfa ekki að taka lán. Í öðru lagi hygg ég, að þá yrði ekki minni stæða til þess að meta stéttir landsins. Og ef ætti að ráðast í að leggja fram stórfé úr ríkissjóði, þá mætti ekki taka eina stétt fram yfir aðra. Alþingi Íslendinga á eftir að sitja einu sinni enn, áður en það telur sig undirbúið til þess að ganga inn á þá braut að leggja fram fé til að strika út skuldir landsmanna. Það væri ekki mikið um að ræða, ef ekki væru annarsstaðar á landinu skuldugir menn en í mínu kjördæmi, eins og hv. 2. landsk. fann sérstaklega ástæðu til að benda á. En það er ekkert eins dæmi, því miður. Það eru víða annarsstaðar þungar skuldir, sem hvíla á landsmönnum. Annars er ég alveg sammala því, sem hv. 1. landsk. sagði um þetta frv. Það er tilraun til að bæta úr. Frv. hefir e. t. v. einhverja kosti, a. m. k. vænta menn þess í framkvæmdinni. En þessari aðferð fylgja eðlilega gallar; slíkt er ekki að efa. Það er hnekkir fyrir þegna landsins að þurfa að gera slíkar ráðstafanir.

Ég skil það ósköp vel, að menn geti búizt við, að slík löggjöf sem þessi verði framlengd, eins og hv. 1. landsk. tók fram, ekki einungis í sambandi við þær skuldir, sem nú eru, heldur líka skuldir, sem myndast á þessu ári. Ég held samt, að á þetta verði að hætta, vegna þess að ég geri ráð fyrir, að bændur yfirleitt verði nú í þessu tilliti að lifa af því, sem þeir sjálfir, geta borgað. Ég hygg það undantekningu, ef þeir fá lán núna. Hv. 1. landsk. hefir skýrt og greinilega tekið fram muninn á því að veita bónda gjaldfrest í því augnamiði, að hann geti haldið áfram að reka sína atvinnu, eða t. d. verkamanni, svo að ég vil ekki endurtaka það. Munurinn er augljós. Það, sem með þessu á að gera, er að sporna við því, að þeir, sem hafa stundað landbúnað og lifað á honum, komist hjá því að neyðast til að hætta þessum atvinnuvegi og lenda í flokki þeirra, sem ekki hafa neitt við að lifa. Mér sýnist, að það ætti öllum að vera skiljanlegt, að jafnvel þótt óþægindi geti verið í sambandi við það, að gengið sé að verkamönnum og sjómönnum fyrir þá, sem fyrir þá verða, þá eru þó miklu meiri líkindi til þess, að þeir geti stundað sömu atvinnu og áður.

Ég vildi mælast til þess, þrátt fyrir hina ýmsu annmarka þessa frv., að það yrði þó gert að lögum og samþ. hér í d.