28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Baldvinsson:

Ég tók ekki dæmið af Norðmylingum fyrir það, að ekki væru skuldir nokkursstaðar annarsstaðar, heldur benti ég hv. frsm. á það dæmi til stuðnings þeirri uppástungu, sem ég var með, að ríkissjóður legði fram fé til skuldagreiðslna og til að fella niður miklu hærri skuldir. Ég tók þetta sem dæmi af því, að gerð hefir verið tilraun í hans kjördæmi til að komast að slíku samkomulagi um skuldir, en þeir hafa ekki getað það, vegna þess að þá vantaði peninga til að greiða samkv. nauðasamningunum, sem hefðu orðið til að fella niður mjög þungar skuldir, sem á bændunum hvíldu. Ég skal ekki segja um það, hve mikil fjárhæð mundi nægja fyrir landið allt, en bendi einungis á þetta sem dæmi.

Skuldir Norðmylinga eru ekki eins dæmi, þótt ástandið á Austurlandi sé e. t. v. verra en víðast annarsstaðar.

Ég þykist litlu þurfa að svara hv. 3. landsk. hvað brtt. hans snertir. Hv. 1. landsk. hefir réttilega bent á, að ef aflahlutur er ógreiddur hjá bændum, þá á það vitanlega að falla undir sömu ákvæði og ógreitt verkakaup. En ég er hræddur um, að hv. 3. landsk., sem býr nú alllangt frá sjó — 25 km. að ég ætla — og er því ekki útvegsbóndi, en aðeins sér út á flóann, geti ekki staðið við það, ef hann heldur því fram, að einungis fáir bændur hafi nokkra útgerð. Fram með allri strandlengjunni hefir fjöldi bænda talsverða útgerð; þeir eiga einn og tvo báta; sumir gera út í félagi og hafa menn bæði upp á kaup og hlut, og ef slíkir hlutir væru ógreiddir, tel ég sjálfsagt, að þeir falli undir sömu ákvæði og ógreitt verkakaup. Það er því ekki til að leiðrétta neinn misgáning, að hv. þm. ber fram þessa till., heldur er það af því, að hv. þm. kannast ekki við orðið útvegsbændur, sem þó er talsvert algengt í málinu. Ég er hræddur um, að þessi sé misgáningurinn hjá hv. þm., og eins kom — ég vil ekki segja fávizka hans, heldur þessi misgáningur honum til þess að tala einungis um fæina útvegsbændur. En það eru heilir landsfjórðungar, þar sem bóndinn á hverri einustu jörð svo að segja hefir hlutdeild í útgerð. Þetta getur fullkomlega staðizt, og það er ekki rétt hjá hv. þm., að ég hafi viðurkennt þetta sem formgalla á frv. eins og það var við 2. umr. Ég vissi það fullvel, að þetta mundi geta staðizt, þótt útvegurinn væri felldur burt. En það er rétt hjá hv. þm., að það átti miklu frekar við og ég hefði lagt meiri áherzlu á þessa brtt., ef frv. hefði staðið óbreytt, en hún á þó fullan rétt á sér þrátt fyrir breytinguna. — ég held svo, að það hafi ekki verið annað, sem ég þurfti að athuga.