31.05.1932
Neðri deild: 88. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Pétur Ottesen:

Ég vil mjög taka undir það, sem hv. frsm. landbn. minntist á í sinni ræðu, að þetta frv. hefir orðið fyrir ómaklegri meðferð í Ed. og að mjög mikið hefir verið dregið úr þeirri þýðingu, sem því í upphafi var ætlað að hafa, þar sem nú hefir algerlega verið kippt burt úr frv. þeirri vernd, sem frv. átti að veita bátaútvegsmönnum, og ég lít svo á, að mjög séu áhöld um þörf bænda og bátaútvegsmanna í þessu efni.

Með þessu frv. á að koma í veg fyrir það, að atvinnutæki bændanna, bústofninn og jarðir þeirra, verði af þeim tekin, þó að þeir geti ekki að öllu leyti staðið við skuldbindingar sínar nú sökum hins óvenjulega erfiða ástands, sem nú er, svo að þeir þurfi ekki að leggja árar í bát, en eigi þess kost að halda atvinnurekstri sínum áfram. Hér er vitanlega alveg sama nauðsyn með bátaútveginn. Ef bátarnir eru teknir af mönnum, þá er heim gersamlega fyrirmunað að halda atvinnurekstri sínum áfram. Þetta átti frv. að tryggja í báðum tilfellum, en sú trygging er nú horfin að því er bátaútveginn snertir, svo að þessir menn eiga nú ekki að fá neina stoð eða slíka vernd í því erfiða ástandi, sem nú er hér á landi og vitanlega kemur mjög hart niður á þeim.

Ég hefi ekki komið með brtt. um að kippa þessu aftur í lag, af því að ég geri ráð fyrir, að nú sé komið að þingslitum, svo að það væri mjög líklegt, að málið dagaði uppi, ef nú væri samþ. breyt. á því, og ég vil ekki láta bændur landsins gjalda þess, þó að Ed. hafi farið þeim höndum um frv., sem hún hefir gert, og veitt því þann áverka, sem það fékk þar með þessari breyt., sem gerð var þar á 1. gr. frv.

Ég mun því greiða atkv. með frv. eins og það liggur fyrir nú, en láta um leið í ljós mjög mikla óánægju yfir því skilningsleysi, sem Ed. hefir sýnt hér á þörfum bátaútvegsmanna, og órétti, sem þeim er með þessu ger.