14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

245. mál, byggingarsamvinnufélög

Héðinn Valdimarsson:

Ég geri ekki ráð fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga, en flm. þess munu þó ætla því að ganga svo langt, að það fái afgreiðslu á næsta þingi.

Hér er farið inn á þriðju leiðina í byggingarmálunum. Fyrsta leiðin var farin fyrir sveitirnar með 1. um byggingar- og landnámssjóð. Önnur leiðin fyrir kaupstaðina með l. um verkamannabústaði. Og hér er ætlazt til þess, að sett verði almenn löggjöf um þetta efni á samvinnugrundvelli. Verður auðvitað í þessu sambandi að hugleiða það, hver nauðsyn er á þessum sérstöku byggingarsamvinnufélögum umfram þær leiðir, sem þegar eru til að þessu marki.

Í bæjunum er nauðsynlegt að hjálpa þeim, sem lakast eru staddir, til að koma sér upp íbúðum, og þetta á líka að vera hægt eftir l. um verkamannabústaði. Með þeirri löggjöf ætti að vera hægt að fullnægja húsnæðisþörf verkamanna, og að miklu leyti húsnæðisþörf iðnaðarmanna, kennara og verzlunarfólks. Þó kann að vera, að nokkur hluti iðnaðarmanna komist ekki undir þau vegna launahámarksins, en til þess að ráða bót á því, mætti hækka hámarkið frá því, sem það nú ákveðið. Hér er því aðallega miðað við þá, sem ekki komast undir lögin um verkamannabústaði. Í frv. er ætlazt til hlunninda, ef 15 menn ganga í félag, sem þeir kalla byggingarsamvinnufélag, an þess að tekið sé tillit til tekna þeirra og eigna. Gæti því svo farið, að inn undir þetta kæmust menn, sem sjálfir hefðu beinlínis efni á að byggja. Ég fæ ekki séð, að nein ástæða sé til þess að ríkið fari að ganga hér í ábyrgð jafnvel fyrir menn, sem byggt geta sjálfir, a. m. k. ekki á meðan ekki er hægt að fá lán til byggingar fleiri verkamannabústaða. Ef frv. þetta yrði samþ., myndi það m. a. verða til þess, að veðskuldabréf þessara samvinnubyggingarfélaga yrðu til sölu samhliða veðbréfum byggingarfélaga verkamanna, og hlypi þannig í kapp við þau og tækju nokkurn hluta af því fé, sem annars hefði gengið til þeirra. hér er líka að sumu leyti gengið lengra en í lögunum um verkamannabústaði, því að bak við ábyrgð mannanna er ekkert nema ríkisábyrgðin, en í lögunum um verkamannabústaði er einnig ábyrgð sveitar- og bæjarfélaga.

Í grg. frv. segir meðal annars: „Ef hið opinbera á að leggja fram verulegan beinan fjárstyrk til húsabygginga alls almennings, eins og nú er gert um byggingu verkamannabústaða, er sýnilegt, að ekki verður hægt að styrkja húsabyggingar nema fyrir fátækasta og tekjulægsta hluta fólksins, en hinir, sem betur mega, verða að bíða“. Um beinan fjárstyrk úr ríkissjóði til verkamannabústaðanna er alls ekki hægt að tala, a. m. k. ekki enn sem komið er, því að lán þau, sem byggingarfélögin hafa fengið, hafa verið með heldur lægri vöxtum en félagsmenn hafa greitt af heim til félaganna. Er því hér ekki um beinan styrk að ræða, heldur útvegun á fé til bygginganna. Nú horfir svo við, að erlend lán er ekki hægt að fá til bygginga, og það jafnvel ekki til byggingar verkamannabústaða, þó að bæði ábyrgð ríkisins og bæjarfélaganna sé á bak við. Mun þá áreiðanlega ekki frekar vera mögulegt að fá lán til þeirra bygginga, sem frv. ræðir um. Ég hefi því mjög litla trú á því, að það komi byggingarmálunum að nokkru gagni, þó að frv. yrði samþ., enda þott ýms ákvæði þess séu góð. Frv. er að miklu leyti sniðið eftir 1. um verkamannabústaði, en bætt inn í það einstaka atriðum, eins og t. d., að bannað er að veðsetja húseignir félaganna fyrir hærri fjárhæð samtals en 80% af upphaflegu kostnaðarverði þeirra og endurbóta. Þó að sum ákvæði frv. séu þannig í rétta átt, eins og ég tók fram áðan, þá teldi ég réttara að endurbæta 1. um verkamannabústaði, áður en gengið yrði langt inn á þá braut, sem í frv. er lögð. Það, sem mér finnst liggja miklu meira á í byggingarmálunum en þetta, er að búa til ramma utan um l. um verkamannabústaði á hann hátt, að hægt yrði fyrir byggingarfélögin í bæjunum að koma upp húsum til þess að leigja út, því að eins og lögin eru nú, er gert ráð fyrir, að húsin séu eign þeirra, sem í þeim búa, en það eru ekki þeir allra fátækustu, sem geta lagt fram 1200–1500 kr. til byggingar húsanna. En nauðsynlegt er að sjá þeim fyrir leigubústöðum, sem ekki geta lagt fram. Þá upphæð, sem nú er tilskilin. Þá þarf einnig að búa betur um það en nú er, að koma á sem sameiginlegustum innkaupum á byggingarefni og öðru því, er til húsagerðar þarf, fyrir byggingarfélögin, því að það er vitanlegt, að sameiginleg innkaup í stórum stíl er stórkostlegur sparnaður frá því að kaupa í smáslöttum. Væri því mjög æskilegt, að kaupstaðirnir úti á landi yrðu í framtíðinni látnir vera í sameiginlegum innkaupum með hinum stærri stöðum, aðallega Rvík. Eins er það um lántökurnar. Þó að Rvík kannske heppnaðist að fá lán til bygginga, þá gæti það með öllu verið okleift fyrir hina minni kaupstaði. Þyrftu lántökurnar því einnig að vera sameiginlegar.

Ég mun nú greiða atkv. með þessu frv. til 3. umr., en ef ég heldi, að það kæmist í gegnum þingið nú, þá myndi ég við 3. umr. flytja við það víðtækar brtt.