03.06.1932
Efri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

88. mál, einkasala á tóbaki

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla ekki að mæla á móti rökum hv. þm. Snæf. Þau geta út af fyrir sig verið goð og gild. Mér dettur ekki heldur í hug að neita því, að alltaf muni verða einhver brögð að því, að smyglað sé tóbaki inn í landið. En ég býst við, þó að við séum ekki sammála um gagnsemi tóbakseinkasölunnar, að við getum orðið ásáttir um, að hægra sé að „kontrollera“ slíka smyglun, þegar sett er sérstakt merki á hvern vindlingapakka.

En ég vildi minnast á, að frá uppeldislegum ástæðum er mikið unnið við að gera tóbakið dýrt. Sérstaklega á ég þar við vindlingana, sem mikið fer í vöxt að reykja. Með því að gera vindlingana svo dýra, að minna verði keypt af slíkri voru, þá er um leið dregið úr notkun hennar. Ég álít, að hætta stafi fyrir unglingana í landinu af þessari sívaxandi notkun vindlinga. Og þó að það sé tilgangur frv. að auka tekjur ríkisins, þá finnst mér samt meira unnið við hækkun þessa, ef hún skyldi verða til þess að draga úr tóbaksnotkun, heldur en þó að ríkissjóður fengi einhvern tekjuauka.