14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Jónas Þorbergsson):

Ég vil f. h. fjvn. mæla nokkur orð með frv. því um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, sem n. hefir leyft sér að bera fram á þskj. 258.

Þar er í fyrsta lagi farið fram á það, að frestað verði til ársloka 1933 100 þús. kr. framlagi ríkissjóðs til Landsbankans, sem ber að greiða samkv. lögum frá 1913. Í öðru lagi að fresta til ársloka 1933 framkvæmd laganna um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, og að fé það, sem samkv. gildandi lögum á að fara í þann sjóð, renni þennan tíma í ríkissjóð. Í þriðja lagi er lagt til, að tekjur þær, sem kunna að verða af tóbakseinkasölunni, renni í ríkissjóð til ársloka 1933, í stað þess að ágóðanum er nú ráðstafað á alveg sérstakan hatt. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því, að framkvæmd laganna, sem sett voru á sumarþinginu um hýsingu prestssetra, verði frestað til ársloka 1933.

Verði þetta frv. samþ., er þarna að ræða um 400 þús. kr. frádrátt á árlegum útgjöldum ríkissjóðs, og virðist engin vanþörf á slíkri tilslökun, eins og nú árar.

Ég skal svo aðeins bæta því við, að því fer mjög fjarri, að í frv. felist nein yfirlýsing af hálfu n. um ónauðsyn þeirra hluta, sem um er að ræða, enda hefir n. miðað þessar till. sínar við árslok 1933, heldur er þetta aðeins áframhald af starfi og viðleitni n. í þá átt að reyna að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, svo sem fært má þykja, meðan svo þröngt er í búi hjá ríkissjóði sem öðrum. Við 2. umr. fjárl. kom n. með till. um frestun á ýmsum greiðslum í 16. gr. fjárl., og var þar um svipaðar upphæðir að ræða og hér er farið fram á að fresta greiðslum á, sem miðaðar eru við heilbrigðara ástand og rýmlegri fjárhagsastæður hjá ríkissjóði, og má gera ráð fyrir, að n. komi með frekari till. í þessa sömu átt við 3. umr. fjárl.

Eins og ég áður sagði, byggjast þessar till. n. ekki á því, að n. álíti, að hér sé um ónauðsynlega hluti að ræða í sjálfu sér, en n. virðist að athuguðu máli, að einmitt þessir hlutir væru það, sem helzt yrði um þokað í þessu efni. Og n. væntir þess, að þessar till. hennar, sem n. að vísu var óljúft að bera fram, eins og margt annað, sem hún hefir séð sig neydda til að leggja til á þessum vandræðatímum, mæti jafnmikilli alvörugefni og skilningi í hv. d. og aðrar till. n. hafa átt að mæta. Þó að þessir hlutir komi illa við í bráð, eru það að líta, að þjóðin verður nú um stund að halda að sér höndum um flestar framkvæmdir til þess að verjast gjaldþroti, og verður ekki hjá því komizt að höggva einhversstaðar svo nærri, að ekki verði sársaukalaust fyrir þá, sem í hlut kunna að eiga.

Ég hefi svo þessi orð ekki fleiri, en vil aðeins að endingu endurtaka þá ósk f. h. n., að þessum till. verði vel tekið hér í hv. d.