22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Við 1. umr. þessa máls gat ég um, að ég mundi koma með brtt. við þetta frv. Þær eru á þskj. 467, en á þskj. 480 er síðan varatill. Ég gerði þá nokkra grein fyrir þessu, og fyrsta brtt. fer í þá átt, að það verði að vísu frestað til ársloka 1933 framkvæmd laga nr. 50, 10. nóv. 1913, um að landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þús. kr. á ári í næstu 20 ár, en af því eru nú 2 framlög eftir, en því aðeins á að fresta þessu eftir minni brtt., að ríkisstj. neyti þeirrar heimildar, sem hún hefir í búnaðarbankalögunum til að fella niður kaup Landsbankans á ræktunarsjóðsbréfum. Þessi heimild var látin í búnaðarbankalögin til þess að ríkisstj. neytti hennar, en hún hefir ekki fengizt til þess á síðastl. 2 árum. Það gæti komið sér illa fyrir Landsbankann, ef hann fengi ekki þessa peninga, en væri neyddur til að kaupa ræktunarsjóðsbréf eins og verið hefir, þó heimild sé til að fella þetta niður. Ég vænti, að n. taki þessu vel og stj. líka, og þarf ég ekki fleiri orðum um það að eyða.

Þá er 2. brtt., um að skemmtanaskatturinn falli til bæjar- eða sveitarsjóða til ársloka 1933. Ég gerði líka grein fyrir því við 1. umr., hvernig á því stendur, að sá skattur á heima þar, sem þessar skemmtanir eru haldnar, og upphaflega rann þessi skattur til bæjar- og sveitarsjóða þar, sem hann var tekinn, en síðar var hann tekinn til að standa straum af kostnaði við byggingu þjóðleikhúss, en nú er lagt til að gera hann að almennum ríkissjóðstekjum. Ég tel þetta ekki réttlátt gagnvart sveitarfélögunum; þau hafa líka þörf fyrir tekjur, þar sem þau hafa ekki getað náð inn útsvörum á síðasta ári. Þeim mundi ekki veita af, þó þau fengju þennan skatt, því þau hafa nóg við hann að gera, bæði til almennra þarfa, atvinnubóta og á annan hátt. Þau þurfa að halda á öllu sínu.

Þá er það 3. liður, um að tekjur af einkasölu á tóbaki falli burt úr frv. Ég lýsti því við 1. umr., á hvern hátt Framsóknarflokkurinn samdi um það við Alþýðuflokkinn, þegar hann hjálpaði honum til að koma á einkasölu á tóbaki á síðasta þingi, að tekjurnar af henni rynnu ekki í ríkissjóð, heldur yrðu notaðar í sérstökum tilgangi, þar sem helmingur þeirra rynni í byggingar- og landnámssjóð, en hinn helmingurinn í sjóð verkamannabústaða. Og við gengum út frá, að það mundi ekki fáum mán. síðar verða gengið frá öllu saman, og sízt af öllu gat okkur dottið í hug, að Sjálfstæðisflokkurinn mundi ganga inn á sömu braut, að lata ríkissjóðinn fá þetta fé. En eftir því nál., sem fjvn. hefir gefið út öll sameiginlega, lítur út fyrir, að báðir flokkarnir hafi komið sér saman um þetta. Ég vil algerlega mótmæla þessum till. og halda fast við, að það standi, sem áður hefir verið samið um, að helmingur þessara tekna gangi til byggingarsjóðs fyrir verkamannabústaði. Ég hygg, að það verði ekki of miklir peningar, sem þessi sjóður fær, þó hann haldi þessum tekjum, enda gæti það orðið til að bæta eitthvað úr atvinnuleysinu, ef hægt væri að halda áfram að byggja, og eins og horfurnar nú eru, er full þörf á því. Þar við bætist, að í sumum kaupstöðum, og sérstaklega þó hér í Rvík, kemur það sér ákaflega illa, ef sjóðurinn missir þessar tekjur, því hér hafa verið reistar miklar byggingar, 54 íbúðir held ég, með það fyrir augum, að þessar tekjur mundu fást. Og eins og nú stendur fæst ekki lán í útlöndum, svo sjóðurinn hefir ekki á annað að byggja en þær tekjur, sem hann á að hafa. Og ef það er tekið fyrirvaralaust af honum, eftir að byrjað er á svona byggingu, sem Alþ. hefir narrað mann út í, þá stendur sjóðurinn uppi ráðþrota. Hann hefir gengið út frá að hafa nóga peninga til að ljúka við þessa byggingu, því maður gat ekki búizt við, að þeir yrðu af honum teknir á þennan hátt. En það verður ekki hægt að ljúka við bygginguna, ef þetta verður tekið. Og þó það væri nú hægt að fá bráðabirgðalán í bönkum hér með dýrari vöxtum, þ. e. a. s. víxlavöxtum, til að ljúka við bygginguna, þá mundi það þó koma fram á verkamannabústöðunum á næsta ári í því, að ekki væri hægt að byggja meira, og þar með væri stöðvuð hér í Rvík öll bygging verkamannabústaða meðan þessi lög væru látin gilda. Mér finnst því, að eins mikið og sumir hv. dm. hafa talað um húsaleiguhæðina í Rvík og húsnæðisvandræðin, þá ættu þeir sízt að taka sjálfsbjargarviðleitnina frá verkamönnum, sem kemur fram í viðleitni þeirra til að byggja sjálfir yfir sig.

Í 2. gr. segir, að lög þessi öðlist gildi þegar í stað. Ég skil nú þetta að vísu svo, að það sé ekki hægt að taka þær tekjur í ríkissjóð sem einkasalan hefir haft á þessum tíma, sem liðinn er og þangað til lögin verða staðfest, því þau geta ekki verkað aftur fyrir sig til áramóta. En það er ekki nóg fyrir sjóðinn, þó hann fái tekjur til þess tíma, er lögin ganga í gildi; það þurfa að halda áfram að koma tekjur í hann, því annars er það fyrirfram séð, að það er ekki hægt að ljúka við bygginguna við Bræðraborgarstíg og Hringbraut. Ég vænti nú, að það séu nægjanlega margir í hv. d., sem sjá þessa nauðsyn, til þess að till. mín verði samþ.

Mér skildist á hæstv. fjmrh. um daginn, að það væri ekki meining hæstv. stj. að taka allar þessar tekjur í ríkissjóð; hann bjóst við, að hagnaðurinn af tóbakseinkasölunni yrði það mikill, þrátt fyrir 15% verðtollinn, sem hann vildi leggja á tóbakið, að í hlut byggingarsjóðs fyrir verkamannabústaði mundi koma það, sem áætlað er í fjárlagafrv., eða 200 þús. kr. Til vara, ef það skyldi ekki verða samþ. að fella tóbakseinkasöluna burt úr frv., hefi ég komið með aðrar till. um það, að bæði öðlist lögin ekki gildi fyrr en 1. júlí 1932, svo að það sé ákveðinn dagur, þegar hagnaðurinn er gerður upp, en ekki óakveðinn, og þá kannske í miðjum mánuði, og svo að auki varabrtt. vænti ég, að hæstv. forseti skoði það svo — um, að aftan við 3. tölul. 1. gr. bætist: „að svo miklu leyti sem þær fara fram úr 200 þús. kr.“, svo að þó að einkasöluhagnaður sá, sem fram yfir er áætlun fjárl., falli til ríkissjóðs, þá sé þó áætlun fjárl. haldið.

Ég skil vel, að margir hv. þm. muni skilja það, hver ábyrgðarhluti það er að setja lög, sem hrinda af stað stórum framkvæmdum í sambandi við ákveðna tekjuöflun, og síðan allt í einu fyrirvaralaust setja lög um, að tekjumöguleikar fyrirtækisins falli úr gildi, þó fyrirsjáanlegt sé, að framkvæmdir stöðvist í miðju kafi. Svo hvað sem hinum liðunum líður í frv., þá vona ég, að það verði ekki samþ., að hagnaðurinn af tóbakseinkasölunni skuli renna í ríkissjóð.