22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) (óyfirl.]:

ég hefi átt samtöl við hv. fjvn. um till. hennar og frv. og tek undir með n. um það, að það sé sízt vanþörf á að fresta heim hlutum, sem þola bið, í þeirri geysilegu kreppu, sem nú ríkir. Því þó það væri illt útlit um margt, þegar við komum hér saman, þá er síður en svo, að neitt hafi batnað síðan. En utanaðkomandi áhrif eru það, sem varða mestu um að skapa það ástand, sem hjá okkur ríkir á hverjum tíma í afkomu þjóðarinnar. ég verð því að leggja með því, að frv. n. verði samþ., þó það séu nokkur einstök atriði, sem ég hefði heldur kosið öðruvísi. Sumpart er það til samkomulags, að ég fellst á þau, og sumpart er það fyrir þær aðgerðir, sem þingið hefur haft við mínar till., eins og t. d. verðtoll af tóbaksvörunum. Ég hafði hugsað mér, að það yrði ekki tekinn í ríkissjóð ágóðann af tóbakseinkasölunni frá byggingar- og landnámssjóði og verkamannabústöðunum nema að nokkru leyti. En það er varla rétt hermt hjá hv. 3. þm. Reykv., að ég hafi sagt, að það mundi ekkert skerðast hlutur verkamannabústaðanna, þó verðtollur kæmi á tóbakið, enda hefði þá ekki verið ástæða til þeirra orðaskipta, sem hér fóru fram milli mín og hv. þm. Við þá umr., ef það hefði legið í orðum mínum. Hinsvegar skilst mér, að hann telji hér vera um svik að ræða af hálfu Framsóknarflokksins, en sú ástæða kemur ekki til greina, nema um lækkun ágóðans sé að ræða, þannig, að verkamannabústaðirnir fái ekki uppborið það, sem þeim upphaflega var ætlað, því að ef fullur helmingur ágóðans er heim greiddur, getur ekki verið um svik að tala. Ég gerði ráð fyrir, að tóbaksverðtollurinn yrði til þess að ná vel þeirri hækkun, sem þyrfti að nást, og að hann kæmi að meiri hl. fram á verðhækkun á tóbakinu, sem sumpart var framkvæmd um áramótin, en sumpart hefði þurft að framkvæma um leið og lögin komu í gildi, sérstaklega á rjóli og „skráa“, en á vindlum, vindlingum og hinum dýrari reyktóbakstegundum var verðhækkunin orðin nóg. Ég bauð hv. 2. landsk. upp á það í Ed. í sambandi við þetta, ef tóbakstollurinn yrði samþ., að ganga þá á móti því, að allur tóbakseinkasöluágóðinn yrði tekinn í ríkissjóð. En þegar búið er að leika það frv. eins og gert var, þ. á m. af hv. 2. landsk., þá er ekki nokkur vegur fyrir fjmrh. annað en að mæla með frv. í þessu efni. Að þessu leyti mega hv. jafnaðarmenn sjálfum sér um kenna að þiggja ekki mitt framborna tilboð, sem var þeim miklu betra en þetta.

Hitt, hvaða dagur það sé, sem það eigi að takmarkast við, hvenær lögin öðlist gildi, er ekki annað um að segja en það, að ég geri ráð fyrir, að tóbakseinkasöluagóðinn renni til verkamannabústaðanna til þess tíma, er lögin öðlast gildi, hvort sem það er staðfestingardagur eða 1. júlí. En það er náttúrlega samningsatriði að einhverju leyti, hvað þá er til fallið af ágóða af rekstri tóbakseinkasölunnar. En ég get heitið því, ef það kemur undir mig að eiga í slíkum samningum, að taka allt það tillit, sem unnt er, til þeirra ráðstafana, sem búið er að gera í sambandi við byggingu verkamannabústaða. Og ef ég sæi, að þeir lentu í örðugleikum vegna þessara laga, mundi ég telja mér skylt að sýna meiri linkind í þeim samningum en ella. Það er sjálfsagt að taka það fram í umr., að af þessum till. eigi engin vandræði að hljótast. Um það þurfum við hv. 3. þm. Reykv. ekki að deila.

Ég hefði óskað að þurfa ekki að fylgja því, að allur tóbakseinkasöluagóðinn skuli renna í ríkissjóð, en rás viðburða, sem mér eru ósjálfráðir, veldur því, að ég verð nú að greiða atkv. með því. En hv. jafnaðarmenn hafa átt sinn þátt í þessari rás viðburðanna, svo þeir mega nú sjálfum sér um kenna, ef þeir þykjast sviknir.