22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Halldór Stefánsson:

Ég vildi benda hv. flm. frv. á þskj. 51 og flm. þessarar brtt. á það, að minni hl. fjvn. hefir aðeins viljað gera till. um árið 1932. Hv. flm. viðurkennir, að þetta, hvernig brtt. er útbúin, sé að kenna misskilningi hjá sér, og það þarf kannske ekki að verða neinn ágreiningur milli okkar, þegar til kemur, ef hann vildi breyta þessari till. sinni og lata hana einnig ná til ársins 1932. Þá má vel vera, að ég geti fylgt henni, en alls ekki, ef hún nær ekki yfir nema árið 1933.

Hv. flm. talaði um, að líkur væru til, að frv. á þskj. 51 mundi daga uppi, þar sem það er ekki komið til 2. umr. ennþá. Ég skal ekkert um það segja, en ég vildi út af því, sem talað var hér utan dagskrár í upphafi þessa fundar, leyfa mér að benda á það, að það er ekki n. að kenna, þó að frv. dagi uppi, því hún hefir gefið álit um það 22. marz, eða fyrir man. síðan, og hefir það legið í vörzlum forseta síðan, svo það er a. m. k. ekki hægt að ásaka fjhn. fyrir það, að málið hefir enn ekki komið á dagskrá. Annars sýnist ekki ólíklegra um þetta mál en ýms önnur, að það geti náð afgreiðslu, ef það á annað borð verður tekið fyrir. — Ég vildi svo aðeins leyfa mér að beina þeirri áskorun til hv. flm., að hann geri alvöru úr því að breyta till.