22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil aðeins leiðrétta það, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði ekki rétt eftir mér frá fyrri umr. þessa máls, að ágóði tóbakseinkasölunnar mundi ekkert rýrna vegna þeirra tekjuaukafrv., er ég hefi lagt fyrir þingið. Ég viðurkenndi það einmitt, að tekjur einkasölunnar mundu eitthvað rýrna, en þó mun sú till. mín vera Alþýðuflokknum hentari heldur en sú till. um tekjur einkasölunnar, sem hér er til umr. Hv. þm. talaði um það, að stóru flokkarnir í þinginu hefðu gert bandalag um að ganga hart að verkalýð og bændum. Þetta er alveg rangt hjá hv. þm. Ástandið er svo alvarlegt nú, að það verður að reyna á þol allra borgara ríkisins, ef okkur á að takast að veita örðug leikunum þolanlega viðnám. Það er því ekki að ætlast til þess, að framleiðendurnir beri einir allan þunga kreppunnar.

Þeir verða öllum öðrum fremur hart úti vegna hennar.

Hitt er alþekkt fyrirbrigði, að minnihlutaflokkar nota sér sína aðstöðu til þess að koma sér hjá allri ábyrgð á þeim sköttum, sem leggja verður á þjóðina, með því að greiða atkv. á móti slíkum sköttum.

Hv. 2. þm. Skagf. dró nokkuð úr fylgi sinna flokksmanna við þetta frv., en ég ætla nú að vona, að það sé mest svona á vörunum og að þeir muni standa við þær till., sem fulltrúar þeirra í n. hafa verið með að samþ. Ef hv. andstæðingar stj. sjá og skilja, hve ástandið er alvarlegt, sem allt útlit er fyrir um marga þeirra, þá skil ég ekki í því, að þeir lati afstöðu sína til annara óskyldra mála verða til þess að hefta framkvæmd þeirra starfa fyrir ríkið, sem allir telja óhjákvæmileg. Ég skal að vísu jata, að það er hverjum flokki heimilt að fella fjárl., sem til þess hefir aðstöðu, en það er ekki það, sem þjóðina vantar nú á þessum tímum. Það er allt annað, sem hana vantar. Það væri að vísu sparnaður fyrir ríkið að losna við öll þau útgjöld, sem ákveðin eru með fjárl., því að fastir tekjustofnar mundu verða í fullu gildi, þó að fjárl. væru felld, en ég býst við, að það sé þó sá sparnaður, sem fáir kæri sig um, og ég hygg, að Alþýðuflokkurinn sé ekki einu sinni svo radikal. Afleiðingin af því að fella fjárlög og tekjustofna ríkisins verður að sjálfsögðu þingrof og nýjar kosningar, — en hvaða líkur eru til þess, að það þing, sem þá verður myndað, beri gæfu til þess að leysa betur þessi mál heldur en við nú getum gert? Hvaða líkur eru fyrir því, að hugarfar þeirra þm., sem þá yrðu kosnir, mundi verða annað en það, sem nú er í þinginu?

Á svo alvarlegum tímum, sem nú eru, eiga slíkar hótanir eins og sú, að stofna til þingrofs út af óskyldum málum, fremur illa heima. Nauðsyn þjóðarinnar krefst þess, að hv. þm. skoði ekki þingmálin sem lotterí; nauðsynin ýtir á eftir, og það er ekki nema ánægjulegt, að tveir stóru flokkarnir skuli vilja hjálpast að því að leysa vandamál þjóðarinnar á friðsaman hatt, þó að einn flokkurinn vilji skjótast undan þeirri skyldu að vilja leggja sína krafta fram.