22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að mér finnst verkaskiptingin hér í hv. d. upp á síðkastið farin að verða alleinkennileg og einkar hentug fyrir hæstv. ríkisstj. Ég er nú ekki gamall þm., en ég hygg, að það sé einsdæmi, að andstöðuflokkur stj. leggi til menn til þess að flytja sparnaðarfrv. fyrir stj., sem menn í hennar flokki vilja ekki gefa sig í að flytja; en þetta er einmitt það, sem gerist nú á þessu þingi og m. a. í þessu máli.

Hv. 2. þm. Skagf. var nú að afsaka það, að því er virtist, að hann hefði gerzt flm. þeirra sparnaðartill., er fyrir liggja, og setti von sína á flokksbræður sína í Ed. um það, að þeir kynnu að lagfæra verstu galla frv. eða fella það. Ég verð að segja það, að margt undarlegt gerist nú á dögum.

Út af hugleiðingum hæstv. fjmrh. um það, að hér sé verið að reyna að taka af öllum jafnt, skal það tekið fram, að hann veit vel, að það er ekki rétt, því hér er sérstaklega gengið á rétt einstakra stofnana og vissra manna innan þjóðfél., sem verða tilfinnanlega illa staddir, ef þetta frv. verður samþ. Auk þess ber að líta á það, að stóru flokkarnir hafa nú sameinazt um það, með niðurskurði á fjárframlögum til verklegra framkvæmda, að ganga á hagsmuni verkalýðsins samtímis því, sem á að fella niður lofað framlag til verkamannabústaðanna, og sjá allir, hvert með því er stefnt og hverjir þar verða fyrir barðinu á lögunum.

Ég vil nota tækifærið, úr því að ég stóð á fætur, til þess að gera nokkrar aths. við það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér við 2. umr. þessa máls um tekjuskatt á Englandi. Hæstv. ráðh. er mjög gjarnt að segja hér tíðindi frá Englandi, en það er leiðinlegt fyrir hann, að þau skuli ekki ætíð vera rétt. Ég benti á við þá umr., að tekjuskatturinn í Englandi nálgaðist það að verða 50% eða um það bil helmingur ríkisteknanna, en hæstv. ráðh. sagði, að hann væri ekki svipað því það. Hann sagði, að skatturinn færi stighækkandi, eins og dæmið vísaði til í heimildinni. Ég hefi nú rannsakað þetta síðan og vil nú leiðrétta það, sem hæstv. ráðh. hefir farið rangt með eftir sinni heimild. Þar stendur, í 12. bindi tímaritsins, bls. 138, að tekjuskatturinn 1928–29 sé lagður á með ákveðinni hundraðstölu, og á bls. 139 er frá því skýrt, að fastur tekjuskattur hafi árin 1925–28 numið 4 sh. af sterlingspundi í hreinum tekjum, eða sama sem 1/5 teknanna. En reglur um persónufrádrátt eru aðrar þar en hér. Þar eru 20 sterlingspund af tekjum skattfrjáls, og auk þess hefir það nokkur áhrif, hvers eðlis tekjurnar eru, en eftir að kemur upp í hátekjurnar munar lítið um frádráttinn.

Hæstv. ráðh. var að gera gys að því, að ég hefði sagt, að sá effektivi skattur í Englandi færi í sumum tilfellum upp undir 50 % af tekjunum, en þetta er rétt. Í skattatöflunni fyrir árin 1927–28, 5 bls. 138, er það sýnt, að af 30 þús. £ hreinum tekjum verður skatturinn 8 sh. og 1 d. af hverju sterlingspundi, og af 150 þús. £ tekjum er skatturinn 9 sh. og 71/2 d. af hverju sterlingspundi, en það er nálega sama sem 50% af skattskyldum tekjum. ég hefi nú verið að velta vöngum yfir þessu og reyna að skilja, hvernig í því liggur, að hæstv. fjmrh. skýrði svo skakkt frá niðurstöðum eins og hann gerði, og ég get ekki stillt mig um að minnast á þá skýringu, sem mér hefir aðeins dottið í hug á þessu, þó að ég sé hræddur um, að hæstv. ráðh. e. t. v. reiðist yfir henni, en hún er sú, að hann hafi mislesið t. d. 8 sh. af sterlingspundi fyrir 8 % af sterlingspundi. Um þetta skal ég að sjálfsögðu ekkert fullyrða, en mér finnst þetta einna sennilegasta skýringin.