22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Við hæstv. fjmrh, erum nú orðnir að mestu sammála um skattinn í Englandi. En ég vil nú einmitt út af því dæmi, sem hann tók, benda honum á samanburð á skattinum hér og þar. Hann sagði, að af tekjum að upphæð 600 £ í Englandi svaraði skatturinn til 10%, en hjá okkur Íslendingum er skattur af jafnháum tekjum miklu lægri. Af 12 þús. kr. tekjum hér, sem er lítið eitt lægri upphæð en 600 £, er skatturinn af 10 þús. kr., sem skattskylt er af tekjunum, aðeins sem svarar 3,4% á móts við 10% í Englandi, eða sem svarar rösklega 1/3 af skattinum í Englandi. Ég hefi þrásinnis bent á þetta dæmi og sýnt fram á það, að þessa skatta ætti að hækka heldur en bæta tolli á toll ofan. Af 8 til 9 þús. kr. tekjum og upp í 20 til 30 þús. kr. eru skattar í Englandi miklu hærri en hér. Þetta eru tekjur þeirra manna, sem hafa föst laun, og hæstv. ráðh. hefir sjálfur sagt, að föst laun við embætti og önnur störf væru vissustu tekjurnar. Því álít ég, að það eigi ekki að hlífast við að leggja skatta á einmitt þessar tekjur í samræmi við það, sem lagt er á samskonar tekjur annarsstaðar, og sömuleiðis við það, sem lagt er á skatthol manna hér á öðrum sviðum. En þessar tekjur vill hæstv. ráðh. ekki skattleggja, en hann vill auka tolla á nauðsynjum atvinnulausra fátæklinga, þó það verði til þess, að margir, sem annars hefðu komizt af, fari á vonarvol. Um þetta er ágreiningurinn milli okkar.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé alvanalegt, að andstöðuflokkar sameini sig um einstök mal, og tilnefndi dæmi um mjög elskulega samvinnu milli Framsóknarflokksins og Íhaldsflokksins árið 1924. Það er rétt, að þetta á sér oft stað með þessa tvo stóru flokka, og ekki hvað sízt nú á þessu þingi. (ÓTh: Hafa ekki jafnaðarmenn og Framsókn verið sammála um sum mál?). Nei, Alþýðuflokksmenn halda fast á sínum málum. (ÓTh: Hvernig var með forkaupsrétt kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum?). Við vorum sammála um þetta smámál, af því að það var samkv. okkar stefnu.

Það er óneitanlega fallega gert af sjálfstæðismönnum að styðja stj., og ber það vott um elskulega samvinnu þessara tveggja flokka, að einmitt menn úr þeim flokki, sem telur sig í andstöðu við stj., skuli nú flytja róttækari sparnaðartill. fyrir stj. heldur en hún getur fengið sína eigin flokksmenn til að flytja. Þetta er óneitanlega mjög fallega breytt gagnvart stj., en það er eftir að vita, hvort það er í fullu samræmi við yfirlýsingar þessara manna til kjósendanna um það, að þeir ætli enga tekjuauka að samþ. fyrir stj. fyrr en góð lausn sé fengin í stjórnarskrármálinu. Það er eftir að vita hvort þessir menn eru með framkomu sinni í þessum efnum að styrkja sína pólitísku aðstöðu meðal kjósendanna í landinu.

Hæstv. fjmrh. talaði um það, að íhaldsmenn og jafnaðarmenn í Englandi hefðu nú nýlega orðið sammála um breyt. á skattalögunum í Englandi. Ég þori ekki að fullyrða, að þetta sé rangt hjá ráðh., en ég verð að draga það ákaflega mikið í efa. Það getur verið, að rétta samkomulag hafi fengizt eftir að þjóðstjórnin kom til valda. (Fjmrh.: Þessi till. var fram komin áður en þjóðstjórnin tók við). Áður en þjóðstjórnin kom til valda voru það tveir ráðh. í ráðuneyti jafnaðarmanna, sem töldu, að það væri aðeins um tvær leiðir að ræða til þess að ráða bót á halla fjárl., og var önnur sú, að hækka tekju- og eignarskattinn, en hin sú, að lækka vexti og draga úr afborgunum á ófriðarskuldunum. Þó eiga þær skuldir að greiðast á ekki skemmri tíma en 140 árum, en árlegir vextir af þeim eru 3 millj. £, eða 1 millj. £ á dag. Þetta voru þær leiðir, sem jafnaðarmenn vildu fara, en íhaldsmenn voru heim till. andstæðir.

Ástandið í Englandi er nú svo, að þeir verða að borga 1 millj. £ á degi hverjum í vexti og afborganir. Og þó afborga þeir ekki meira en svo, að þeir þurfa 140 ár til að borga skuldir sínar upp, þótt þeir greiði 360 millj. £ á ári. Jafnaðarmenn þar vildu lækka vextina eða skattleggja þessi skuldabréf. En íhaldsmennirnir vildu viðhalda tollunum, eins og hæstv. fjmrh. og aðrir íhaldsmenn vilja hér. Að vísu heitir það víst því nafni hjá heim, að þeir vilji vernda atvinnuvegina í landinu með því að leggja á verndartolla.

Hæstv. fjmrh. sagði, að við jafnaðarmenn hefðum hjálpað Framsóknarflokknum til að fá samþ. tolla á þingi 1328. Án þess ég meðgangi þetta, þá vil ég benda á, að hæstv. fjmrh. og flokkur hans hafði þá komið vel fram í ýmsum málum, sem voru áhugamal Alþýðuflokksins. Má t. d, nefna togaravökulögin, sem við bárum fram, og hæstv. ráðh. studdi vel, ríkislögregluna, sem hann barðist á móti, og fleira mætti nefna. En vitaskuld gaf þetta hæstv. ráðh. og flokki hans enga allsherjarsyndakvittun, sem dygði til langframa. Það er ekki rétt, að við höfum greitt atkv. með verðtollinum 1928. Við fengum þá lækkaðan kaffi- og sykurtollinn, sem nam meiru en því, sem kola- og salttollurinn hækkaði. — Samhjálpin gekk sæmilega 2 fyrstu arin, en svo fór að verða örðugra um samvinnu, er frá leið. Og þegar þeir hættu með öllu að vilja sinna málum okkar jafnaðarmanna, var samvinnunni slitið. Og nú erum við í algerðri andstöðu við Framsóknarflokkinn og hann, eða a. m. k. viss hluti hans, í hreinni andstöðu við okkur jafnaðarmenn.