03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi því miður ekki attað mig fyllilega á þeim brtt., sem hér eru fram komnar við þetta frv. Ætla ég því að snúa mér að því að ræða um örlitla brtt., sem við hv. 2. þm. N.-M. höfum í sameiningu borið fram við frv. um það að fella niður 4. lið þess, sem er þess efnis, að niður skuli falla framlag ríkissjóðs til hýsingar á prestssetrum. Eftir því sem þessi liður er orðaður, er helzt að skilja, að ætlazt sé til, að allt tillag úr ríkissjóði til þeirra hluta falli niður, en slíkt mun ekki vera framkvæmanlegt eins og sakir standa, því í lögunum er ekki aðeins gert ráð fyrir, að veitt sé ákveðið framlag til tveggja prestsseturshúsa á ári, heldur er svo fyrir mælt, að skylt sé að veita lán upp í framhaldskostnað við hýsingu prestssetra. Þar, sem byggingar eru nú í smiðum, verður óhjákvæmilegt að fullnægja þessu ákvæði. 4. liður getur því ekki náð nema til fasta framlagsins til tveggja húsa á ári, samtals víst um 24 þús. kr. En þar sem fram hafa komið upplýsingar um það, eftir að þetta frv. var hér til umr. síðast, að húsakynnin á prestssetrinu Söndum í Dýrafirði eru svo bágborin, að það er engin leið við þau að una og verður að endurnýja þau helzt þegar á þessu ári, þykir sýnt, að ekki muni reynast hægt að fella niður þessa fjárveitingu. Við hv. 2. þm. N.-M. höfum því leyft okkur að bera fram brtt. þess efnis að fella niður úr frv. 4. lið, þó okkur hinsvegar þyki leitt að rýra tekjur ríkissjóðs vegna þessa frv. (JBald: Ætli það sé ekki bezt að fella frv. eins og það er?). Hv. 2. landsk. er ekki tregur til þess að fella þá tekjuauka, sem ríkissjóður getur fengið, en hann er aftur á móti ekki eins fús á að gefa ríkissjóði tekjur til þess að standast öll þau útgjöld, er hann heimtar af honum. Hann hefir enga ábyrgðartilfinningu fyrir því, að það þurfi að sjá ríkissjóði fyrir nokkrum tekjum, það sé aðeins nóg að heimta og heimta. Þeir, sem aftur á móti skilja horf ríkissjóðs og það, að hér er aðeins um neyðarráðstöfun að ræða með samþykkt þessa frv., munu standa fast á málstað ríkissjóðs, þó það sé því miður ekki hægt hvað snertir 4. lið frv. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál að sinni og lata ótalað um brtt. annara hv. þm. meðan þeir hafa ekki talað fyrir þeim.