03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Ég hefi flutt tvær till. við þetta frv., aðaltill. og varatill. Aðaltill. er um það, að tillagið til verkamannabústaðanna verði ekki skert eins og gert er ráð fyrir í 3. lið frv., en til vara, að til þeirra gangi árið 1933 100 þús. kr. Síðan ég bar fram þessa varatill. hefir hv. 1. landsk. borið fram skrifl. brtt. um, að til verkamannabústaðanna verði lagðar 50 þús. kr. hvort ár. Ég hefi nú leyft mér að koma fram með skrifl. brtt. við þessa brtt. hans á þá leið, að í stað 30 þús. komi 100 þús., en jafnframt tek ég aftur mína varatill. á þskj. 823. Aðaltill. mín á þskj. 823 fer fram á, að byggingarsjóður verkamannabústaðanna fái óskertan skerf sinn af ágóða tóbakseinkasölunnar samkv. 14. gr. laga nr. 58 frá 8. sept. 1931, þar sem ákveðið er, að sá hagnaður skiptist til helminga milli verkamannabústaðanna og byggingar- og landnámssjóðs. Nú er ég því í raun og veru mótfallinn að fella niður styrkinn til byggingar- og landnámssjóðs, en af því að þeir, sem telja sig forsvarsmenn þeirrar stofnunar hér á þingi, láta sem þetta saki ekki og að fé þetta muni ekki verða notað, þó það þyrfi í sjóðinn, þá hefi ég ekki séð ástæðu til að koma með brtt. um að fella þetta niður, enda var till. á þá leið felld við 2. umr. Ég læt því nægja að koma með brtt. um það, að tillagið til verkamannabústaðanna verði látið haldast óbreytt.

Á þessu ári hafa verið reistar hér í bæ stórmyndarlegar byggingar fyrir tilhjálp laganna um framlag ríkisins til verkamannabústaða, og hafa hv. þm. átt kost á því að kynna sér þessar byggingar. Geta þeir því að eigin sjón sannfærzt um, hversu prýðilegar byggingar þetta eru. þeir ættu og að geta skilið, að við vaxandi atvinnuleysi og bágindi verkafólksins minnkar ekki nauðsyn þess til þess að fá sem þægilegast húsnæði með sem hagkvæmustum kjörum. Ég sé því enga ástæðu til þess fyrir hv. þm., að þeir gangi á gefin loforð mikils meiri hl. þingsins 1931 um það, að verkamannabústaðirnir fái sinn vissa hluta af einkasöluagóðanum, þó margir ótrúlegir hlutir gerist nú á hinum síðustu tímum.

það er rétt, að brtt. hv. 1. landsk. rúmar efni minnar varatill. að því er snertir árið 1933, og ég læt mér því nægja að gera brtt. við hans brtt., því ég sé, að það kemur betur við, að hún verði samþ. inn í hans brtt., og tek ég því aftur mína varabrtt. Ég tel það annars eðlilegast, að lögin eins og þau eru séu látin halda sér um framlag ríkissjóðs til verkamannabústaðanna. Ég held því eindregið fram minni aðalbrtt. En það er fullkomlega rétt og venjulegt, að þótt eitthvað sé almennt tekið fram í lögum, þá séu gerðar frá því undantekningar.

Það hafa fleiri hv. þm. flutt hér till. til breyt. á þessu frv., og það leynir sér ekki, að búið er að fjölga prestum í ríkisstj., því að hv. 3. landsk., sem er öflugasti stuðningsmaður hinnar væntanlegu stj., vill ekki láta falla niður 4. liðinn, um hýsing prestssetra, eða framkvæmd þeirra 1., sem hafa nokkur útgjöld úr ríkissjóði í för með sér, eitthvað 20–30 þús. kr. á ári. Það má vel vera, að það sé rétt hjá hv. þm., að verið sé nú að reisa ýmsar byggingar, sem þurfi að fá slíkan styrk; en ég hefði vel getað sætt mig við einhverja frestun á þessum 1., og ég held m. a. s., að ég hafi í fyrra flutt till. þess efnis, og það er ekki á móti mínu skapi, þótt þessu sé ofurlítið frestað. Ég tel sjálfsagðara, að tekið sé tillit til almennra hagsmuna fremur en tiltölulega fámennra stétta. Ég skal gjarnan vera með hv. 3. landsk. í að koma öllu frv. fyrir kattarnef, ef hann vill vinna það til til þess að bjarga prestssetrunum. En mér fannst hann taka það eitthvað svo óstinnt upp fyrir mér, þegar ég skaut því fram í fyrir honum, að ég skyldi hjálpa honum til þess að drepa frv., og talaði hann um, að ég hefði litla ábyrgðartilfinningu, en heimtaði og heimtaði og léti það í léttu rúmi liggja, hvort hægt væri að sinna kröfum mínum. Ég mun eiga um mína ábyrgðartilfinningu við mína umbjóðendur, og væntanlega getur hv. þm. átt við sína eigin umbjóðendur um þá ábyrgðartilfinningu, er hann sýnir hér í þinginu. Hv. þm. segir, að ég heimti og heimti ýmisleg útgjöld. Þetta er rétt. Ég hefi komið fram með ýmsar till. til útgjalda, og ég er kominn hingað til þess að heimta fjárframlög til atvinnubóta, til þess að heimta fjárframlög til verkamannabústaða og annars slíks, sem má almenningi að gagni koma. Það má vel vera, að hv. 3. landsk. sé ekki kominn til þess og heimta fyrir almenning. Hann er kominn til þess að heimta fyrir prestastéttina og hæstaréttardómara, sem er líklega fámennasta stétt landsins, en hann heimtar þó aðallega fyrir.

Hvað skattamálin snertir, þá hefir núg. skattalöggjöf í flestum atriðum verið samþ. gegn mótmælum okkar jafnaðarmanna, og við höfum bent á aðrar leiðir, sem hv. þm. vill bara ekki fallast á. Það er nú ágreiningurinn í skattamálum. Slíkt kemur ekkert ábyrgðartilfinningu við. Það er ágreiningur, sem er í öllum löndum í skattamálum. Það má segja, að hv. 3. landsk. hafi ekki mikla ábyrgðartilfinningu, er hann vill framlengja verðtoll og lata þrautpíndan almenning greiða þann skatt af mörgum nauðsynlegum hlutum, sem hann þarf, af sinni fátækt og vesaldómi. Það er sannarlega engu minni ábyrgð, sem hvílir á hv. 3. landsk., þegar hann heimtar slíkt.