04.06.1932
Neðri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Við Alþýðuflokksmenn berum enn á ný fram brtt. við þetta frv., og nú bæði aðaltill. og varatill.

Aðaltill. okkar gengur út á það, að byggingarsjóðir verkamannabústaðanna haldi áfram óskertu tillagi sínu af ágóða tóbakseinkasölunnar, svo sem l. mæla fyrir. Hefi ég áður skýrt frá því, hvernig þessi l. um einkasölu á tóbaki eru til komin, og skal ég hér aðeins endurtaka það, að við alþýðuflokksmenn teljum það hrein svik af Framsóknarfl. og gengið á gerða samninga, ef þetta frv. er samþ. óbreytt og byggingarsjóðirnir þannig sviptir þessum tekjustofni, sem þeim er nauðsynlegur til þess, að starfsemi þeirra geti haldið áfram óhindruð, auk þess sem þegar er búið að ráðstafa nokkrum hl. af þessu tillagi vegna verkamannabústaðanna hér í Rvík, því að auðvitað var gengið út frá, að óhætt væri að treysta því, að l. um tóbakseinkasöluna yrðu í gildi áfram. Af ótta við, að þetta fáist þó ekki fram, hofum við komið með þá varatill., að byggingarsjóðirnir haldi a. m. k. því tillagi, sem þeim er áætlað í fjárl. af ágóða tóbakseinkasölunnar og nemur 100 þús. kr., en eftir þeim fregnum, sem borizt hafa af einkasölunni, má búast við því, að tekjur einkasölunnar fari fram úr áætlun, eða verði meiri en 200 þús. kr., og fengju byggingarsjóðirnir því ekki það, sem þeim ber að l., eftir sem áður, því að samkv. l. eiga þeir að fá helminginn af ágóða einkasölunnar.

Hæstv. forsrh. hefir áður lýst yfir því í umr. um þetta frv., að hann mundi ekki framkvæma þessi l. þannig, að þau verkuðu aftur fyrir sig, eða að hann mundi láta byggingarsjóðina halda tillagi sínu óskertu þar til l. ganga í gildi, og geng ég út frá því, að þetta standi óbreytt; enda þótt ný stj. sé tekin við, síðan hæstv. ráðh. lýsti yfir þessu. En þetta er hvergi nærri nóg, og ætti enda að liggja í augum uppi, að öðruvísi verða l. ekki framkvæmd, svo að ástæðulaust er að vera að fyllast þakklæti út af þessu, enda krefjumst við þess, að ekki verði gengið á gerða samninga í þessum efnum og byggingarsjóðirnir fái að halda þessum tekjustofni áfram, því að ella verður kyrrstaða í byggingum verkamannabústaðanna, og má þó sízt svo fara.