04.06.1932
Neðri deild: 94. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

826. mál, lán til skipaviðgerðarstöðvar í Reykjavík

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég hygg, að enginn okkar geti sagt fyrir um það, hvernig fjárhagsleg afkoma þessa fyrirtækis muni verða. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að þetta væri ekki gróðafyrirtæki, en það er þó víst, að ekki er það stofnað í öðrum tilgangi en til að græða á því. Það má reiða sig á það, að einstakir menn leggja ekki í slíkt fyrirtæki til þess eins að gera skipaeigendum greiða með því, sem er ekki heldur von.

Ég held fast við það, sem ég sagði áður, að það er nauðsynlegt að undirbúa þetta betur og setja ýms skilyrði af hendi ríkisins eða bæjarins, því að eftir þeim till., sem nú liggja fyrir, hefir ríkið í raun og veru enga tryggingu, en áhættu talsverða.

Þó að frv. yrði samþ. óbreytt, þá yrði afleiðingin engan veginn sú, að tvær dráttarbrautir kæmust upp hér í bæ, því að þetta einkafyrirtæki mundi hætta við sína, en bærinn komast að samningum við firmað að kaupa þessa dráttarbraut, sem nú er á leiðinni, ef hún reynist nothæf, sem óskandi er.

Ég held því fast við mína skoðun, þar sem ég get ekki heldur fundið, að hæstv. fjmrh. hafi getað komið fram með neina nýja ástæðu.