23.02.1932
Neðri deild: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

30. mál, vigt á síld

Flm. Vilmundur Jónsson):

Ég flyt frv. Þetta fyrir tilmæli kjósenda minna á Ísafirði, og vænti ég, að það gangi ágreiningslaust gegnum þingið. Ég vænti þess, því fremur fyrir það, að í því er ekki farið fram á annað en það, sem áður hefir komið fram í þinginu og ekki valdið ágreiningi. Eins og hv. þdm. munu kannast við, var frv. um þetta efni flutt á þinginu 1930 og náði þá einróma samþ. hv. Ed. Síðan kom það fyrir þessa hv. d. og var samþ. með shlj. atkv. við 2. umr., einmitt í þeirri mynd sem ég flyt það í nú. En við 3. umr. var skotið inn í það heimild um, að undir vissum kringumstæðum væri leyfilegt að mæla síldina í stað þess að vega hana, sem þó skyldi vera höfuðreglan. Um það, hvort réttara sé að vega eða mæla síld, ætti ekki að þurfa að deila. Lögboðin sölueining á bræðslusíld er þyngdareining (135 kg.). og þyngd er að jafnaði fundin með vog, en ekki mæli. Og er einkum erfitt að finna þunga síldar án þess að vega hana, þar sem vitanlegt er, að sama rúmmál af síld er mjög svo mismunandi þungt. Þungi þessarar vörutegundar fer eins og kunnugt er eftir því, hvort síldin er nýlega veidd eða orðin gömul og slæpt. Ég tel ekki ástæðu til að hafa hér fleiri orð um að svo stöddu, og býst við hinum beztu undirtektum. Tel ég ekki afgreiðslu málsins góða nema því aðeins, að það fái að ganga nefndarlaust gegnum þingið.