08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

30. mál, vigt á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Þannig hefir til tekizt, að sjútvn. hefir klofnað um þetta mál. Þó finnst mér ekki vera mikill skoðanamunur milli meiri og minni hl. Hv. minni hl. vill láta standa óhögguð fyrirmæli laga frá 1930 um vigt á síld, með samningarheimild til mælingar, en meiri hl. lítur aftur á móti svo á, að eins og nú er komið sé rétt að taka af allan vafa og lögbjóða fortakslaust vigtun á síld, á líkan hátt og gert hefir verið um flestar aðrar vörutegundir, sem áður gengu kaupum og sölu eftir mælingu. Það verður ekki annað séð en að af þessum tveimur aðferðum sé vigtunin öruggari, þó vitanlega sé einnig hægt að falsa vigtun, ef menn vilja sig til þess hafa. Það er í flestum tilfellum auðveldara fyrir þá, sem eftir þessu vilja líta, að sjá við rangindum, ef beitt kann að verða, við vigtun heldur en við mælingu, ef sjónhending ein ræður.

Meiri hl. n. vill þó gera einu dálitlu breyt á frv. Hann lítur svo á, að sektarákvæði í 2. gr. séu óeðlilega þá. Ef svo stæði t. d. á, að vog vantaði og af þeim ástæðum kæmu aðiljar sér saman um að mæla síldina, telur meiri hl. ekki rétt að láta liggja við svo háar sektir sem frv. greinir, þótt hann vilji lögfesta þá reglu, að yfirleitt sé öll síld vigtuð. Í 2. gr. frv. er ákveðið, að sektir skuli vera frá 200 til 20000 kr. Leggur meiri hl. n. þar til, að í staðinn komi 100 til 10000 kr., og virðast það hæfilegri sektarákvæði. Til hliðsjónar má benda á, að í l. nr. 24 frá 1930 eru sektarákvæði mun lægri. Mætti jafnvel líta svo á, að þau væru of lág, og raunar sektarákvæði frv. líka, ef um hrekkvíslega vigtun eða mælingu væri að ræða. Telur meiri hl. því rétt að fara meðalveginn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, og munu atkv. skera úr um, hvað hv. d. telur réttast í þessu máli.