08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

30. mál, vigt á síld

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Ég vil aðeins taka það fram, að mér þykir einkennilegt, að hv. 1. þm. S.-M. skuli halda því fram, að þótt þetta frv. yrði samþ., gæti kaupandi og seljandi, í því tilfelli, að engin vog væri til, eftir sem áður komið sér saman um að mæla síldina. Það er skilyrðislaust sagt í frv., að öll síld, sem sett sé í bræðslu, skuli hér eftir vegin. En óski einhver að selja verksmiðju síld, en hún hafi hinsvegar ekki vog til þess að vega hana, þá verður hann að hverfa frá, sökum þess að bannað er að selja síld eftir máli. Taki verksmiðjueigandinn á móti síld eftir máli, þá gengur hann með því undir þau ákvæði frv að greiða svo og svo háa sekt. Benda má á í þessu sambandi, að lögboðið er að vega salt, en það er látið afskiptalaust, þótt það sé mælt. Og það, að framkvæmdarvaldið lætur þetta afskiptalaust, er viðurkenning á því, að l. séu óþörf, og það er einmitt það, sem minni hl. n. vill beita sér gegn, að Alþ. samþ. fleiri slík l., sem framkvæmdarvaldið sjálft viðurkennir, að ekki sé rétt að framfylgja.