09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors [frh.]:

Ég var í miðri ræðu, er forseti sleit fundi í gær, og tek þar nú til, sem fyrr var frá horfið. Ég hafði þá gert grein fyrir, hvernig málið horfði við áður en rannsókn hófst. Er það skemmst af að segja, að rannsóknin staðesti þann orðróm, er gengið hafði, að mælikerin voru nokkru stærri en vera átti. Þau voru frá 153 lítrum upp 162 lítra eða 159 lítrar til jafnaðar, og hafa því verið 6% stærri en vera bar. Sátt að segja er ekki gott að gera sér grein fyrir, hvernig á þessu stendur. Þetta kom okkur bræðrum öllum mjög á óvart, og gerði ég þegar er mér barst þessi orðrómur boð fyrir beykinn, sem málin hefir smíðað, en hann hafði ég ekki séð eða talað við áður. Hann kvaðst ekki trúa, að nein skekkja hefði átt sér stað. Hann kvaðst enn eiga fyrirmyndina, er hann hefði smíðað eftir, og sagðist einnig hafa hellt vatni úr fyrirmyndinni í málin, og hefðu sum reynzt lítið eitt stærri, en tunnur minni, en munurinn verið hverfandi. en niðurstaðan af mælingu löggildingarstofunnar varð sú, að málin reyndust stærri en sú löggilta fyrirmynd, sem hafði verið smíðað eftir. Trú beykisins var þannig hrakin með staðreyndum. En skekkjan nam ekki 20%, eins og hv. þm. Ísaf. vildi gefa í skyn, og ekki heldur 10%, heldur sem næst 67%.

Við forstjórar h/f Kveldúlfs undruðumst stórlega þessar fregnir og snerum okkur þegar til rannsóknardómarans bréflega og báðum hann að láta þegar í stað flytja hið löggilta mál frá Hesteyri hingað til Rvíkur á löggildingarstofuna, til þess að hægt væri að mæla það þar fullkomlega, svo ekki yrði um villzt, og rannsóknardómarinn varð við þeirri beiðni. Málið var hingað flutt með næstu ferð undir lögreglueftirliti. Og við rannsókn löggildingarstofunnar á þessu löggilta máli frá Hesteyri, sem mál bræðslustöðvarinnar þar höfðu verið smíðuð eftir, kom það í ljós, að málið tók tæpa 153 lítra eða 3 lítrum meira en vera átti. Þetta sýnir það, að löggildingarstofunni getur líka skeikað, og verður að líta á það sem nokkra afsökun fyrir beykinn. Löggildingarstofan lét útbúa mál, sem átti að taka 150 lítra, en tók 103 lítra, en beykirinn ætlaði að smíða mál, sem væru jafnstór og 153 lítra málið, en urðu 159 lítrar. Ég skal ennfremur bæta því við. eftir nýfengnum upplýsingum, að í skýrslu þeirri, sem löggildingarstofan hefir sent rannsóknardómaranum í þessu máli, er það tekið fram, að málin stækki við notkunina, og geti sú stækkun numið 3 lítrum á mælikeri á þeim kerum, sem mikið séu notuð. Ef mælikerin á Hesteyri hefðu upphaflega verið smíðuð 153 lítrar, þ. e. a. s. jafnstór hinni löggiltu fyrirmynd, þá væru þau samkv. þessari umsögn löggildingarstjóra orðin 156 lítrar, og verður þá smíðaskekkja beykisins 3 lítrar á máli eða 2%, eða jöfn skekkju mælingastofunnar. Virðist það óneitanlega benda til þess, að hér sé um óviljaverk að ræða, en ekki visvítandi ásetning. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að mörg mælikerin voru minni en þetta, og sýnast því hafa verið smíðuð minni en hin löggilta fyrirmynd. í skýrslu þeirri, er ég las upp hér í hv. d. í gær í þessu máli, var gróðinn af skekkju síldarmálanna talinn 6%, en eftir þessum nýju upplýsingum ætti hann ekki að vera nema 1/3 þeirrar upphæðar, og nemur það þá sem svarar 15–20 kr., sem við eigum að hafa haft af hverjum sjómanni okkar. Ég held, að það geti ekki sýnzt líklegt, að félagið, sem borgað hefir hverjum sjómanni þetta 15 til 20 hundruð kr. fyrir um 60 daga vinnu yfir síldartímunn, hafi látið sig draga um það og getað fengið sig til að svíkja af hverjum sjómanni einar 15 til 20 kr., með því að nota fyrir augunum á þeim visvitandi röng mæliker. Ég held, að hv. þm. Ísaf. hljóti að eiga erfitt með að fá menn til að trúa því, að hér sé um visvítandi sviksemi að ræða, hversu vel, sem hann leggur sig fram. En ef einhverjir hv. þdm. væru nú þannig gerðir, að þeir vildu leggja trúnað á orð þessa hv. þm., þá vil ég til samanburðar benda á það, að í bréfi löggildingarstjórans til rannsóknardómarans er það tekið fram, að heimilt sé að hafa á hverju máli 12 göt niður við botninn, sem vatnið, sem er í síldinni, geti runnið út um, en á Hesteyri hafa þessi göt aldrei verið sett á málin. Það sýnist ekki sem bezt samræmi í því, að verksmiðjan notar sér ekki þetta ákvæði til þess að fyrirbyggja, að hún kaupi vatn fyrir síld, en reyni hinsvegar að stela af síldareigendum með því að nota svolítið of stór mál.

Ég þykist ekki þurfa að rökstyðja frekar mótmæli mín gegn hinum ómaklegu ummælum hv. þm. Ísaf. um þetta mal, þar sem hann hefir viljað gefa í skyn, að átt hafi sér stað visvítandi sviksemi frá hendi verksmiðjunnar. Það er svo augljóst mál, að hér er ekki um annað en óviljaverk að ræða. Ég skal hinsvegar játa það, að það er bæði óviðfelldir og leiðinlegt fyrir félagið, að þetta skyldi koma fyrir.

Hv. þm. sagði í gær, að ég hefði smeygt inn í frv. 1930 ákvæðinu um heimild til þess að mæla síld, ef hlutaðeigendur kæmu sér saman um það, en ég hefði gætt þess vandlega, að engar varúðarráðstafanir væru gerðar til þess að hafa eftirlit með því málið hinsvegar hefði ég látið mér mjög annt um, að vigtunin væri sem hárréttust. Um síldarmál bæði þá og nú er það að segja, að til voru og eru lög og reglur um það, að löggilda skuli öll mæliker, og eiga yfirvöldin að hafa eftirlit með því, að sú löggilding fari fram. Ég skal að vísu játa, að mér var ekki kunnugt um þessi lög 1930, en ég get sagt hv. þm. það, að ég hafði ekki önnur afskipti af þessu frv. 1930 en þau að vera á móti því, en hlutast þó til um, að heimilt skyldi að mæla síldina.

Hv. þm. Ísaf. flutti um það langt mál í gær, að h/f Kveldúlfur hefði haft af togaranum Hávarði Ísfirðingi sem svaraði eins ár afla á þeim 3–4 árum, sem togarinn hefði lagt inn síld á Hesteyri. (VJ: þetta er ekki rétt haft eftir). Jú, þannig var helzt að skilja hv. þm. í gær. Ég hefi nú síðan í gær rannsakað viðskipti síldarbræðslustöðvarinnar á Hesteyri við Hávarð Ísfirðing þau 3 ár, sem togarinn lagði upp síld á Hesteyri, en það var árin 1927–'28 og '29. Öll þessi ár var það leyft að mæla síld, og ég vil leiða athygli hv. þdm. að því að varast að rugla saman hinum tveimur ólíku síldareiningum, 150 lítra máli og 135 kg. þunga. Ef misbrestur á að hafa verið á máli á síld togarans þessi ár, þá hlýtur hann að hafa verið falinn í því, að málin hafi verið röng, en um það er ekkert hagt að segja, því það er ósannað mál, að mælikerin hafi verið of stór á heim tíma. Þegar af þessari ástæðu eru því fullyrðingar hans með öllu marklausar. En hv. þm. vildi leiða líkur að því, að togarinn hefði skaðazt á mælingunni, með heim rökum, að þessi togari hefði aldrei fengið nema 1500 mál í einu þau ár, sem hann lagði síld upp á Hesteyri, en síðastl. sumar hefði hann haft 1800 mál eftir ferðina, þegar hann lagði upp á Sólbakka. En þetta sannar ekkert. Ég las í gær upp skýrslu um afla þessa togara þau árin, sem hann lagði inn á Hesteyri, og var niðurstaðan á þá leið, að aflafengurinn fer hækkandi ár frá ári, þannig að 1927 hefir hann hæst 1035 mál eftir túrinn, 1928 hefir hann 1373 mál og 1929 1507 mál. Að skipið hafi 1931 getað haft 1800 mál eftir túrinn er ekkert nema eðlilegt framhald á aukningu aflans, sem á 3 árum hefir vaxið úr 1035 upp í 1507 mál. Að það er mögulegt fyrir skipin að taka meiri og meiri síld, kemur til af því, að skipstjórarnir eru alltaf að minnka kola- og saltforða skipanna, og geta skipin þess vegna rúmað meira af síld. Auk þess stendur svo á með þennan togara, sem hv. þm. er hluthafi í og ætti því að vita, að það voru gerðar þær ráðstafanir um hann að taka heila lest fyrir síldargeymslu, sem áður hafði verið notuð fyrir kol. Ef hann veit þetta ekki, þá ætti hann að tala minna um þessa hluti.

Ég geymi mér rétt til þess að tala ýtarlega við hv. þm. um þetta mál síðar, og máske þá í sambandi við önnur mál, sem fyrir kunna að koma, en ég vildi enda ræðu mína með því að árétta aðvörun mína til hv. þm. um það, að það er varhugavert á þessum tímum að gera leik að því að leggja nýjar kvaðir á atvinnuvegina. Ég skal ekki fullyrða það, að ekki sé hægt að vigta síld á Hesteyri, en ég er fullviss um það, að það gerir afgreiðsluna miklu seinlegri, og breyt. hefir mikinn kostnað í fór með sér. Það má vera, að þeir menn finnist hér í hv. þd., sem hefðu gaman af því, að síldarbræðslustöðin á Hesteyri yrði að hætta vegna þessa frv., ef það yrði að lögum, þetta fyrirtæki, sem hefir getað greitt sínum sjómönnum 1500–2000 kr. kaup fyrir 2 mán., þegar þeir sjómenn, sem skiptu við ríkisbræðsluna, báru ekki úr býtum nema 100–200 kr. á sama tíma. En það má ef til vill ætla, að hv. þm. Ísaf. verði ekki skotaskuld úr því að útvega þessum mönnum atvinnubætur eftir því líka að dæma, hve heillavænleg áhrif þessi alþýðuforkólfur hefir haft á samvinnufél. Ísfirðinga.