09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2808)

30. mál, vigt á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég hefi hlustað með dálítið blandinni ánægju á skriftamál hv. þm. G.-K. Ég hefi vorkennt honum að eiga yfir sér jafnstrangan skriftaföður og hv. þm. Ísaf. Sátt að segja fannst mér skriftafaðirinn fara fullhörðum höndum um hv. þm. G.-K., en í þessum atriðum málsins eru þeir hinir réttu aðiljar, og hæfir bezt, að þeir eigist þar við einir. (ÓTh: Hann hefir nú kastað kveðju á hv. 1. þm. S.-M. líka).

Ég verð að segja það, að eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. G.-K. hefi ég styrkzt mjög í þeirri skoðun, að lögfesta beri vigtun á síld án nokkurra undantekninga annara en þeirra, sem nauðsyn veldu. Þetta óhapp, sem viljað hefir til á Hesteyri næstl. ár, sýnir það ljóslega, að lögin frá 1930, eða undanþáguheimild þeirra frá vigtun, getur að slysi orðið og valdið óréttmætum grunsemdum.

Út af því, sem hv. þm. G.-K. var að tala um, að frv. legði kvöð á síldarútveginn, þá vil ég minna hv. þm. á það, að þessi kvöð er búin að vera í gildi í 2 ár og er því ekki ný; hér er aðeins um að ræða fágæta undantekningu frá eldri reglu, sem ráðgert er að leggja niður.

Ég verð að segja hv. þm. Ísaf. út af ummælum hans í gær um það, að ég hefði árið 1930 gert það af greiðasemi við hv. þm. G.-K. að fylgja ákvæðinu um undanþágu frá að vigta síld, að ástæðan til þess, að ég þá féllst á undanþáguna, var sú, að ég vissi fyrir, að frv. mundi ekki ná samþ. með öðru móti. Kaus ég því fremur að tryggja framgang málsins en eiga á hættu, að það félli. Mér skilst nú líka, eftir því sem fram kom í ræðu hv. þm. G.-K., að honum hafi orðið lítill fengur að þessu undanþáguákvæði, sem hefir orðið honum að slysi, en engu happi. Vona ég svo fastlega, að hv. þd., eftir að hafa hlustað á þessi einstæðu skriftamál hv. þm., geti verið ákveðin og ásátt um, að réttast muni vera að láta vogina gilda og taka þannig af allan vafa.