09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

30. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Út af ræðu hv. 1. þm. Rang. vil ég gera þá aths., að hann trúir ekki sjálfur á það, sem hann kennir, að það sé til niðurdreps síldarútveginum að vega bræðslusíld. Ef svo væri, mundi hann flytja frv. um að fyrirskipa, að öll síld skyldi mæld, en lögbannað yrði að vega síld. Nú er það svo, að allar síldarverksmiðjur á landinu láta vega síldina nema ein. Og þessi eina, sem lætur mæla, er stöðin á Hesteyri. Og það væri þá aðeins til niðurdreps þessari einu verksmiðju að banna að mæla síld, ef þetta væri rétt hjá hv. 1. þm. Rang. En trúi þá hver, sem trúa vill, að allar bræðsluverksmiðjur landsins nema ein taki ótilneyddar upp síldarvigtun, ef það væri til niðurdreps atvinnurekstri þeirra. Það er þó ekkert höfuðatriði, hvort síld er mæld eða vegin, heldur hitt, að einungis annaðhvort er gert eða að búið sé a. m. k. jafntryggilega um hvorttveggja, rétt mál og rétta vog. (ÓTh: Eigum við að flytja frv. um, að alla síld skuli mæla?). Það er ekkert aðalatriði. En hitt er annað mál, að það að er margt, sem bendir á, að það sé þó öruggara að vega síld en mæla og þetta fyrst og fremst: Það hefir hvergi komið fram kvörtun yfir þeirri aðferð, en a. m. k. á 2 stöðum hafa komið fram mjög ákveðnar og alvarlegar kvartanir um síldarmælinguna og orðið úr opinbert hneykslismál.

Hv. þm. G.-K. vill gera þetta að persónulegu máli. Ég vildi hans vegna ekki gera það, og það hefir ekkert persónulegt verið frá minni hendi. En framkomu hv. þm. í þessu máli er mjög persónulega tortryggileg, þar sem hann fyrst, þegar setja á lög um að vega alla bræðslusíld, notar aðstöðu sína sem þm. til þess að smeygja því inn, að það megi þó einnig mæla hana, en síðan, gerandi samninga við sjómenn um að greiða þeim premiu af 150 lítra málum, fær 10% betri útkomu með því að mæla en vega, og í tilboð 10% fyrir skokk mæliker. Þetta er góð uppbót fyrir síldarverksmiðjuna á Hesteyri, en kemur ekki þessum atvinnurekstri yfirleitt til góða. Hvers vegna ætti að hætta að vega bræðslusíldina eins og hv. þm. stingur upp á? Það hefir ekki heyrzt, að hinar verksmiðjurnar, sem tekið hafa upp síldarvigtun, vilji hætta því, og ekki heldur neinn af þeim, sem selur síld eftir vigt.

Það, sem ég hefi haldið fram, er aðeins þetta: Hvað eftir annað hafa komið upp hneyksli í sambandi við mál á síld, og nú síðast við fyrirtæki hv. þm. G.-K. En það er ekki ég, sem hefi gert hv. þm. tortryggilegan. Það er hann sjálfur, sem hefir gert það. Ég hefi ekki barizt fyrir því, að síld væri mæld jöfnum höndum og vegin. Ég hefi ekki notað þá aðferð, í blóra við hv. þm. sem síldarkaupanda, sem gefur honum 20% meiri síld en honum ber. Ég hefi ekki smíðað skökku síldarmálin hans og ég hefi heldur ekki falið þau þegar átti að mæla þau af lögreglunni. Það er því alveg skakkt hjá hv. 1. þm. Rang., að ég hafi verið að gera þetta fyrirtæki hv. þm. tortryggilegt; það er fyrirtækið sjálft, sem hefir gert sig tortryggilegt.

Ég gleymdi að minnast á það, sem hv. þm. G.-K. hafði eftir mér um togarann vestra, sem ég nefndi, Hávarð Ísfirðing, og viðskipti hans við Kveldúlf. Það er ekki rétt eftir haft, að ég hafi sagt, að munað hafi eins árs veiði á þrem árum. Ég sagði, að þessi togari hefði skipt við Hesteyri í 3 ár. Og svo bar ég það saman, að ef skipið hefði skipt við Hesteyri í 5 ár — og það munaði 20%, hvort skipt væri við Hesteyri eða Sólbakka, þá hefði Hesteyrarstöðin fengið eins árs veiði fyrir ekki neitt. Er þetta ekki rétt? (ÓTh: Ónei, það er nú tóm vitleysa). Hv. þm. hefir viðurkennt, að Hávarður Ísfirðingur hafi komið til Hesteyrar með mest 1500 mál, en á Sólbakka komu upp úr skipinu 1800 mál. Þetta nemur 20%. Það hefir reynzt, að það munar yfirleitt um 10% á vog og mæli kaupandanum í hag, og um 10% munaði á kerunum. Þetta kemur þannig heim, og er einnig í samræmi við reynslu annara skipa, sem lagt hafa til skiptis upp á Sólbakka og Hesteyri.