09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

30. mál, vigt á síld

Jón Ólafsson:

Aðeins nokkur orð til hv. þm. Ísaf. Hann hélt því fram, þessi hv. þm., að ég vildi helzt afnema bæði vigt og mál á síld, en þetta er ekki rétt. Ég sagði aðeins, að ef ég væri sjómaður, þá myndi ég fara fram á, að síldin væri mæld. En þó að þessi hv. þm. haldi málinu mestmegnis gangandi á smásmugulegum naglaskap og títuprjónastungum í þann manninn, sem hann er hér að seilast til, þá mun það ekki verða honum að liði, heldur aðeins verða til þess að flestir muni fá viðbjóð á málssókninni.

Þá þóttist hv. þm. ekki hafa farið neinum óvirðingarorðum un hv. þm. G.-K. eða drottað neinu ósæmilegu að honum, þó að hann talaði um hneykslismál í sambandi við hann, teldi hann mjög tortryggilegan o. fl. Þetta um 1500 málin á Sólbakka er hreinasta fjarstæða og öfgar. Ég er búinn að sanna, að prósenttölur mjöls og lýsis munar sáralitlu á báðum stöðunum, og það er óhrekjandi sönnun, sem ekki verður í móti mælt.

Þessi 20%. mismunur er því tilbúningur einn, gerður af þeim mönnum, sem hafa tilhneigingu til að ofsækja aðra.