09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf. gat þess enn á ný, að aðalsönnunin fyrir 20% mismuninum væri sú, að skipin hefðu farið til Sólbakka, en ekki Hesteyrar. Það stendur nú svo á, að ég hefi í höndum bréf frá skipstjóra á einu af þeim Skipum, sem lagt hafa upp síld bæði á Hesteyri og Sólbakka. Skýrir skipstjóri frá því, að venja sé að síma um áætlaðan afla á innleið, og segir frá þeirri reynslu sinni, að aflinn hafi sízt fremur farið fram úr áætlun þegar losað var á Sólbakka en Hesteyri. Hann skýrir ennfremur frá því, að síðastl. sumar hafi hann losað á Sólbakka 2134 mál úr einni veiðiför, og hafði til þess tíma aldrei jafnmikið komið úr skipinu. En skömmu síðar var aflinn lagður á land á Hesteyri, og reyndist þá 2327 mál, eða nær 200 málum meiri en mest hafði verið áður.

Ég hygg, að af þessu geti menn markað, að það er rétt, sem ég hefi verið að segja, að skipin hafa alltaf, frá ári til árs, verið að rúma meiri og meiri afla, með því að minnka rúm fyrir salt og kol.

Um viðkynningu okkar þau 25 ár, sem við höfum þekkzt, ætla ég ekki að fara að tala nú frekar en orðið er. Ég býst ekki við, að umr. um hana yrðu honum til heiðurs, og ef til vill veit hann það sjálfur líka.