21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

30. mál, vigt á síld

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Sjútvn. hafði mál þetta til meðferðar og klofnaði um það. Minni hl. n. lagði til, að það yrði ekki samþ., og færði rök að því, að óþarft væri að banna mönnum að kaupa síld í löggiltum málum, þegar samkomulag væri um það milli kaupanda og seljanda að mæla síldina. Út af þessu sneri minni hl. sér til Þorkels þorkelssonar, sem veitt hefir löggildingarstofunni forstöðu árum saman, og bað hann að segja álit sitt á þessu máli. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréf hans til okkar um þetta efni:

„14. marz 1932.

Herra alþm. Guðbrandur Ísberg Alþingi.

Vegna fyrirspurnar yðar í bréfi dags.

10. þ. m., hvort ég telji öruggara og heppilegra að vega síld eða mæla, vil ég leyfa mér að geta þess, að ég hefi í allmörg ár lítið fengizt við mál og vog og eigi reynt að fylgjast með í öllum þeim breytingum, sem kunna að hafa orðið á því sviði hin síðustu arin, en það er skoðun mín, að afhending síldar geti gengið greiðlegar, ef síldin er mæld í mælikerum, og það er mikilsvert atriði, bæði fyrir þá, sem afhenda og taka á móti síldinni, að mælingin tefji afgreiðsluna sem minnst, og vilja flestir vinna það til að slaka á kröfunni um hárnákvæma mælingu, en að afhendingin tefjist til muna vegna mælingarinnar. En auðvitað verður mælingin að vera óhlutdræg, og það á hún að vera, ef notuð eru löggilt mælikeröld. Með vigtun á góðri vog má að vísu fá nákvæma mælingu á síldinni, ef þá síldin er ekki söltuð, sem gerir vigtunina hlutdræga, og sé nú farið að slumpa til um áhrif söltunarinnar, þá er hin aukna nákvæmni um leið glötuð.

Með hentugum vogum getur vigtunin að mínu áliti gengið svo greiðlega, að hún tefji ekki afhendingu síldarinnar að neinum mun, en ég býst við því, þótt ég sé því máli eigi kunnugur nú, að kostnaðurinn við vigtunina og vogarahöldin verði alltilfinnanlegur, a. m. k. töluvert meiri en ef mælikeröld eru notuð. En það, sem ég hefi aðallega á móti vigtuninni, er það að þótt vogirnar séu góðar og nýlöggiltar í byrjun síldveiðitímans, þá er það í rauninni engin trygging fyrir því, að vogirnar haldist réttar út allan síldveiðitímann, ef þær eru mikið notaðar og meðferð þeirra eins og gengur og gerist. Það getur farið svo, að þær vegi stórlega rangt, er líður á síldveiðitímann.

Það er erfitt að ganga svo frá löggildingarakvæðum og löggildingu voga, að sá, sem setur sig út til þess, geti eigi svikið vigtun á vogum. Með því að fyrirskipa, að síldin sé vegin af löggiltum vigtarmönnum er að vísu fyrir þetta byggt, en hinsvegar er engin trygging fyrir því, að vigtarmennirnir noti ekki vogarahöld, sem orðin eru röng, því að hingað til hefir þess eigi verið krafizt af löggiltum vigtarmönnum, að þeir hafi sérþekkingu í að meðhöndla og prófa vogarahöld.

Ég er því þeirrar skoðunar, að yfirleitt sé heppilegra að mæla síldina en vega hana, og geri ég þá auðvitað ráð fyrir, að eingöngu séu notuð löggilt mælitæki og vogaráhöld. Ef þeir, sem hlut eiga að máli, hafa eigi framtak til þess að ganga eftir því, að notuð séu einvörðungu löggild mæliker, þá hefi ég litla trú á, að þeir gangi úr skugga um, að margbrotin vogaráhöld séu löggilt og í lagi.

Þorkell Þorkelsson“.

Þetta segir nú sá maður, sem hefir verið formaður löggildingarstofunnar árum saman og ætti að hafa manna mesta reynslu og þekkingu í þessum efnum. Hann telur ekki tryggara að vega en mæla og álitur jafnvel heppilegra að ýmsu leyti að mæla síldina. Nú er ekki verið að fara fram á að mæla síldina eingöngu, heldur er því haldið fram, að óheppilegt væri að banna með öllu að mæla síld. Bréfið styður álit okkar. Er þess að vænta, að eftir að hv. þdm. hafa heyrt álit þessa manns, athugi þeir, hvað þeir eru að gera, áður en þeir banna að mæla síld í löggiltum mælikerum.