21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2822)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Ég hélt því fram við 2. umr., að tryggara væri að mæla síld en vega. Nú hefir minni hl. sjútvn. leitað álits Þorkels Þorkelssonar á málinu. Ég get ekki betur séð en að umsögn hans sé veigamikil rök fyrir okkar málstað. Þessi maður, sem árum saman hefir dæmt um öryggi vogartækja, segir, að þótt tækin séu rétt í byrjun veiðitímans, geti þau vegið stórlega rangt í lok hans. Því telur hann öruggara og jafnframt fljótlegra að mæla síldina. Hvaða vit er nú í að banna síldarmælingar, þegar sá maður, er mest vit hefir á þessum málum á landi hér, hefir látið slíkt álit í ljós? Löggjafinn má ekki gera sig sekan um það að ganga svo í berhögg við reynslu og þekkingu. Mér komu þessar upplýsingar ekkert á óvart. En meiri hl. hv. d. vildi ekki trúa rökum mínum við 2. umr. málsins, og það get ég að vísu sætt mig við, en ég held, að ekki verði komizt hjá að beygja sig fyrir rökum Þorkels Þorkelssonar.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að aðeins ein verksmiðja mældi síldina, og þá verksmiðju skyldi kúga til að vega hana. Ég get þó frætt hv. þm. á því, að hæpið er, að sú verksmiðja leggi í hann kostnað, sem vigtun síldar fylgir, ekki sízt þar sem bryggjur verksmiðjunnar eru í mikilli skriðuhættu.

Við síðustu umr. sagði þessi hv. þm., að ég hefði svikið mig í gegnum próf í skóla, eða „svindlað“, eins og hann orðaði það. Ég vil nú biðja hv. þm. að upplýsa, í hverju þessi svik lágu. Ég hefi engar dulur á það dregið, að ég hafi ekki verið prófmaður, og var það e. t. v. af því, að ég lagði ekki eins mikla rækt við námið og hv. þm. En slíkar hneisur gleymast með tímanum. Skólabræðrum okkar eru vafalaust ekki mín lágu próf eins minnisstæð ennþá og eitt hið ljótasta skammarstrik, sem framið hefir verið í skóla — af hv. þm. Ísaf.