21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

30. mál, vigt á síld

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki blanda mér í þær persónulegu deilur, sem risið hafa í sambandi við þetta mál, en það verð ég þó að segja, að það eykur ekki álit mitt á frv., þó að hv. flm. þess sé að blanda því inn í umr., hvernig einum eða öðrum hafi gengið um próf í skóla, meðan mér hefir ekki verið sannað það, að slíkt skipti máli um það, hvort réttara sé að vega síld eða mæla. Og sama gegnir um aðrar dylgjur hv. flm. í garð hv. þm. G.-K. Þær eru aðeins til að veikja trú manna á því, að frv. sé flutt af eins hreinum hvötum og vera ætti og hv. flm. þykist flytja það af. Ég sé ekki, að neitt sé dularfullt við það, þó að beykinum hafi ekki tekizt að hafa öll málin jafnstór; a. m. k. bendir það ekki til þess, að hér sé um neitt ákaflega dularfullt fyrirbrigði að ræða, þar sem beyki sjálfrar löggildingarstofunnar tókst ekki heldur að hafa þau mál rétt, sem hann smíðaði. Eins og dæmið um málið frá löggildingarstofunni sýnir, getur það auðvitað komið fyrir, að mál séu röng, án þess að nokkur brögð séu í tafli.

Ég vil minnast nokkuð á þær ástæður, sem hv. þm. Mér færði fyrir fylgi sínu við frv. Hann kvað vaka fyrir sér að fá sem allra nákvæmastan mæli. Þetta er auðvitað rétt og sjálfsagt, en nú hefir komið fram, eins og sést á vottorði Þorkels Þorkelssonar, að vogum getur skeikað, og það stórlega. Þetta er engin ný bola. Ég man eftir, að í Ameríku var vögnum ekið yfir vogir inn í hlöðurnar, og ég heyrði bændurna þrásinnis tala um það sín á milli, að vel gæti nú verið, að haft væri af sér. En hér er ekki verið að tala um neina hnitmiðaða nákvæmni, þar sem þungi síldar er svo misjafn í hlutfalli við rúmmál. Aðalatriðið er, að hér hefir verið sýnt fram á, að sanngjarnara og öruggara er að mæla en vega. Ég gæti því miklu frekar fallizt á, að fyrirskipað yrði að mæla alla síld, ef taka á annan kostinn, en útiloka hinn.

Annað mælir og á móti frv., og er það ekki síður hagsmunamál seljenda en kaupenda. Ef töf verður vegna vigtunarinnar, sem sannað er, að komið getur fyrir, dregur það úr framleiðslunni til enn meira tjóns fyrir seljanda en kaupanda. En vigtun hefir næstum ávallt tafir í fór með sér, ekki sízt, ef vogirnar eru langt í burtu, eins og hv. þm. Ísaf. var að tala um. Þá mælir það og á móti frv., að vogir þessar eru mjög dýrar, ekki sízt þar, sem þær eru í hættu af völdum náttúrunnar, eins og vera mun á Hesteyri. Ættu menn ekki að gera sér leik að því að gera framleiðsluna dýrari en hún þarf að vera, og má gott heita, ef ekki þarf að beita harkalegri ráðstöfunum en að lofa henni að vera í friði. Eitt atriði kemur hér enn til greina og það er, að miklu erfiðara er fyrir viðskiptamennina að fylgjast með og líta eftir, að rétt sé vegið en að rétt sé mælt. Ef löggildingamennirnir gæta þess, að málin séu rétt, er vandalaust að fylgjast með því, að rétt sé mælt. Aftur á móti er ákaflega erfitt að fylgjast með því, hvort vogin er rétt allan síldartímann.

Þræta út af vogum er ekkert nýnæmi. Það má heita, að áframhaldandi stríð hafi verið öldum saman milli kaupenda og seljenda út af vigt á ull og fiski o. s. frv. Vogin er eitt elzta og viðkvæmasta þrætueplið.

Ég held, að ef ég væri á síldveiðaskipi, kysi ég heldur að sjá síldina mælda fyrir augunum á mér en að láta vega hana eftir að upplýst er, að vogir geta svikið. Hv. þm. Ísaf. sagði, að síld væri alstaðar vegin nema á Hesteyri. Var helzt að skilja á honum, að aðrir síldarkaupendur væru einhverjir englar. En vafalaust mætti segja með sama rétti og hv. þm. segir, að Hesteyrarverksmiðjan vilji láta mæla síldina í hagsmunaskyni, að kaupendurnir annarsstaðar myndu þykjast græða á vigtuninni.

Ég tel langsanngjarnast, að þau lög séu látin haldast, sem nú gilda, og það sé undir samkomulagi seljanda og kaupanda komið, hvort síldin er mæld eða vegin.