21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2840)

30. mál, vigt á síld

2840Ólafur Thors:

Ég get ekki skilið, hvernig hv. þm. Barð. fer að álíta það kúgun frá minni hendi, þó ég setji það skilyrði að kaupa síld í mælieiningum, en ekki þungaeiningum. Hér er um það að ræða, hvort heimilt skuli í þessum viðskiptum eða ekki að nota tvennskonar einingar, 150 lítra eða 135 kg. Nú segir hv. þm., að ef ég neiti að nota 135 kg. sem vörueiningu, en kaupi aðeins í 150 lítra vörueiningum, þá sé ég að kúga sjómennina á sama hátt og faktorar selstöðuverzlananna gömlu, er þeir hótuðu fátækum bændum því, að þeir fengju ekki pund af matvöru hjá sér nema þeir gengju úr kaupfélaginu, eða ef ég neitaði verkamönnum um atvinnu nema þeir greiddu atkv. eins og ég vildi. Þessar samlíkingar eru slík reginvitleysa, að mig furðar mjög á því, að hv. þm. skuli bera annað eins fram hér í hv. d. Eins og kunnugt er, hefir það verið venja að kaupa og selja saltfisk í skippundum, en nú er verið að taka upp þá breyt. að selja hann í 50 kg. Í stað 50 kg. Hefði auðvitað verið hægt að taka upp 200 kg. einingu, sem er stærri en 160 kg. eining eða 1 skippund. En það dettur engum í hug, að það breyti nokkuð verðinu á fiskinum, hver einingin er notuð. Og það væri mjög hlægileg ályktun að kalla það kúgun, þó einhver óskaði að nota t. d. 50 kg. eininguna, af því að þægilegra væri fyrir hann að nota hana. Ég vil heldur nota 150 lítra einingu en 135 kg., af því hún er þægilegri í framkvæmd og öruggari.

Hér er ekki um annað að ræða en það, hvora þessara tvegga eininga eigi heldur að nota í sölu og kaupum á síld, og hvort það eigi að vera frjálst eða ekki fyrir hlutaðeigendur að nota þá vörueiningu, sem þeir koma sér saman um.